Boris gefur ekki kost á sér

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að gefa kost …
Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að gefa kost á sér. JUSTIN TALLIS

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir því að leiða breska Íhaldsflokkinn og þar af leiðandi taka við forsætisráðherrastólnum á ný. 

Í tilkynningu nú í kvöld sagði Johnson að þrátt fyrir að hafa nægilega marga stuðningsmenn innan þingsins til þess að bjóða sig fram, hafi hann ákveðið að gera það ekki. Sagðist hann hafa 102 stuðningsmenn innan þingsins, en til að geta boðið sig fram þarf að hafa 100 stuðningsmenn.

Johnson sagði að á þessum tímapunkti væri það ekki rétt skref fyrir hann að bjóða sig fram. Sagði hann ástæðuna vera að það væri ekki hægt að stýra ríkisstjórn með góðu móti án sameiningar í þinginu.

Var hann mjög sigurviss í yfirlýsingu sinni og sagði að ef hann byði sig fram gæti vel verið að hann væri kominn aftur á Downingstræti 10 á föstudag.

Þó Johnson segist hafa tryggt sér stuðning 102 þingmanna, höfðu aðeins 57 opinberlega lýst yfir stuðningi við forsætisráðherrann fyrrverandi. 

147 styðja Sunak

Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann ætlaði bjóða sig fram til formennsku í flokknum. Hann hefur nú þegar tryggt sér stuðning yfir 147 þingmanna. 

Penny Mordaunt, fyrrverandi viðskiptaráðherra og fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands og þingmaður Íhaldsflokksins, hefur einnig gefið kost á sér en samkvæmt nýjustu talningu hefur hún aðeins tryggt sér stuðning 24 þingmanna. 

Frambjóðendur hafa frest til klukkan 14 að breskum tíma á morgun til að bjóða sig fram til formanns og tryggja sér stuðning í það minnsta 100 þingmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert