Verja lungu heimsins áfram

Norðmenn taka regnskógastyrk sinn nú upp á nýjan leik en …
Norðmenn taka regnskógastyrk sinn nú upp á nýjan leik en greiðslurnar voru snarlega stöðvaðar árið 2019 þegar Jair Bolsonaro forseti stóð við það kosningaloforð sitt að brjóta land til ræktunar svo brasilískur landbúnaður fengi dafnað. Ljósmynd/Regnskog.no

Norski umhverfisráðherrann Espen Barth Eide lýsir því nú yfir að Norðmenn muni á ný taka upp regnskógastyrkinn svokallaða til verndar Amazon-frumskóginum í Brasilíu. Var greiðslunum, sem runnu í Amazon-sjóðinn, hætt árið 2019 í stjórnartíð Jair Bolsonaros, sem lét í minni pokann fyrir Luiz Inácio Lula da Silva í forsetakosningunum í landinu í gær.

Ástæðan var sú að Bolsonaro hét því fyrir kosningarnar árið 2018, og stóð við gefin orð, að leyfa frekari eyðingu skógarins til að styðja við brasilískan landbúnað með því að ryðja skóga til ræktunar nautgripa og sojabauna sem eru meðal helstu útflutningsvara Brasilíu. Á sama tíma hættu Þjóðverjar einnig sínum styrkjagreiðslum.

Frá því árið 2007 hafa Norðmenn látið 8,3 milljarða norskra króna, jafnvirði tæplega 116 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag, af hendi rakna til að verja þetta víðáttumikla skóglendi sem nær yfir 5,5 milljónir ferkílómetra og hefur stundum verið nefnt lungu heimsins.

Gjörsamlega hundsað samninga

„Við munum ræða við hans fólk [forsetans nýkjörna] um formsatriðin og stjórn styrkjanna. Háar upphæðir eru í frysti á reikningi í Amazon-sjóðnum í Brasilíu og hægt að greiða þær út með skömmum fyrirvara,“ segir Eide við NTB-fréttastofuna.

„Eyðing skógarins jókst gríðarlega í stjórnartíð Bolsonaros sem er mikið áhyggjuefni. Allir, sem láta sig umhverfið varða, hafa horft upp á það með böggum hildar hvernig hann hefur gjörsamlega hundsað samninga og loforð,“ segir ráðherra enn fremur.

Lýsti Lula því yfir eftir sigurinn í gær að hann hygðist stöðva eyðingu regnskógarins algjörlega þrátt fyrir að sú aðgerð hafi ekki vegið þungt í kosningabaráttu hans þar sem hann rétt minntist á hana í fáeinum ræðum enda hefur brasilískur almenningur, að minnsta kosti í stórborgunum, haft um aðra hluti að hugsa síðustu misseri, örbirgð, heimsfaraldur, spillingu og glæpi svo eitthvað sé nefnt.

„Í dag er mikilvægur dagur. Hann er góður fyrir Brasilíu en hann er líka góður fyrir allan heiminn,“ segir Eide umhverfisráðherra.

Dagsavisen

Document.no

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert