Afneitun repúblikana „leið í átt að stjórnleysi“

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Michael A McCoy/Getty

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði bandaríska kjósendur við því í gær að framtíð lýðræðisins væri í húfi í þingkosningum í landinu í næstu viku. Það að sumir frambjóðendur Repúblikanaflokksins hafi neitað að viðurkenna kosningaúrslit opni fyrir „leið í átt að stjórnleysi í Bandaríkjunum”.

Íhaldsmenn hafa gagnrýnt ríkisstjórn Bidens fyrir stöðu efnahagsins í landinu. Biden, sem er 79 ára demókrati, beindi aftur á móti sjónum sínum að repúblikönum sem hafa gengið í lið með Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, við að neita að viðurkenna kosningasigur Bidens árið 2020.

Donald Trump árið 2020.
Donald Trump árið 2020. AFP/Andres Caballero-Reynolds

„Það eru aðilar í framboði í ýmsar stöður í Bandaríkjunum…sem neita að viðurkenna úrslit kosninganna sem þeir eru að taka þátt í,” sagði Biden í sjónvarpsræðu þar sem hann ávarpaði bandarísku þjóðina.

„Þetta er ó-amerískt“

Hann bætti við að markmið þeirra væri að fylgja fordæmi Trumps og „snúa á haus sjálfu kosningakerfinu. Nefndi forsetinn að yfir 300 repúblikanar sem hafa afneitað kosningaúrslitunum væru á kjörseðlum víðs vegar um landið á þessu ári.

„Þeir hafa alið á ofbeldi og ógn í garð kjósenda og embættismanna,” bætti hann við, en innan við tvö ár eru liðin síðan æstur múgur stuðningsmanna Trumps ruddist inn í bandaríska þinghúsið í von um að snúa við úrslitunum úr forsetakosningunum.

„Þetta er leiðin í átt að stjórnleysi í Bandaríkjunum,” sagði Biden. „Það eru engin fordæmi fyrir þessu. Þetta er ólöglegt. Þetta er ó-amerískst.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert