Biðin eftir IKEA gæti skipt máli

Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í mánuðinum.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í mánuðinum. AFP

„Ég held að eng­in rann­sókn geti leyft okk­ur að segja fyr­ir um út­komu stríðsins því það er verið að skera úr um hana í raun­tíma ein­mitt núna. Og hún bygg­ist ekki á gögn­um, hún er í hausn­um á sturluðu fólki í Kreml.“

Þetta seg­ir Christo Grozev, sem leitt hef­ur rann­sókn­ir miðils­ins Bell­ingcat í mál­efn­um Rúss­lands og varpað ljósi á ýmis ódæðis­verk rúss­nesku rík­is­stjórn­ar­inn­ar, er hann er spurður hvernig hann meti gang stríðsins í Úkraínu.

Christo Grozev ræddi við blaðamann mbl.is í Helsinki í lok …
Christo Grozev ræddi við blaðamann mbl.is í Hels­inki í lok síðasta mánaðar. AFP

Mis­lukkaðar áætlan­ir Pútíns

„Áður en ég hóf al­vöru­blaðamennsku starfaði ég í út­varpi. Fyrsta út­varps­leyfið sem ég fékk í Rússlandi fyr­ir banda­ríska fyr­ir­tækið sem ég starfaði fyr­ir var und­ir­ritað af Pútín sjálf­um í Sankti Pét­urs­borg árið 1995. Þannig að ég hitti hann 1995,“ seg­ir búlgarski blaðamaður­inn.

„Ég tel að Pútín líti á stríðið núna eins og eitt­hvað sem sé að koma fyr­ir hann án þess að hann fái nokkru ráðið um hvert það stefni.

Hann hafði áætl­un, hún mistókst. Hon­um bauðst önn­ur áætl­un, hún mistókst sömu­leiðis. Þannig að núna er hann bara að bregðast við í raun frá viku til viku. Það ger­ir þetta allt sam­an mjög óvíst,“ bæt­ir hann við og bend­ir á að þetta geri öðrum kleift að brjót­ast til frek­ari valda í rúss­neska stjórn­kerf­inu.

Nefn­ir hann þá sem dæmi Jev­gení Prígosjín, ná­inn banda­mann Pútíns og stjórn­anda Wagner-hóps­ins, en greint var frá því í gær að hann hefði viður­kennt að Rúss­ar hefðu haft áhrif á kosn­ing­ar í Banda­ríkj­un­um.

Gæti orðið til góðs

„Þetta býr til aðra valda­hópa, á borð við Prígosjín, sem hafa árum sam­an byrgt inni reiði yfir því að hafa verið notaðir bara sem fjár­magn og sem peð í hern­um,“ seg­ir Grozev.

„Svo að skyndi­lega núna er hann [Prígosjín] með sitt eigið vald, sitt eigið egó, fólk sem virki­lega trú­ir á hann. Þannig að ég sé nýja leik­menn koma á póli­tíska sjón­ar­sviðið í Rússlandi. Og þetta eru slæm­ir leik­menn, því miður.“

Hann seg­ir þetta þó geta leitt til góðs.

„Það gætu skap­ast til skamms tíma enn verri aðstæður, sem al­menn­ing­ur í Rússlandi mun ekki þola. Einn gagna­punkt­ur sem ég get nefnt hér er sá að við höf­um fylgst með al­geng­ustu spurn­ing­un­um á Yand­ex, það er rúss­neska Google, frá upp­hafi inn­rás­ar­inn­ar.

Til þessa hef­ur ein af topp-tíu-spurn­ing­un­um verið: „Hvenær kem­ur IKEA aft­ur til Rúss­lands?“ Og þetta gef­ur mér von um að þetta sam­fé­lag, sem búið er að markaðsvæða mjög, muni ekki þola til lengd­ar aðstæður á borð við þær sem eru í Norður-Kór­eu.“

Horft í átt að Kremlinni. Grozev segir rússnesku stjórnina í …
Horft í átt að Kreml­inni. Grozev seg­ir rúss­nesku stjórn­ina í raun vera markað. AFP

Hefði mátt stöðva stríðið fyrr

Er eitt­hvað sem þér finnst Vest­ur­lönd, hvort sem það eru rík­is­stjórn­ir eða al­menn­ing­ur, ekki skilja þegar Rúss­land er ann­ars veg­ar, og hvernig það virk­ar?

Grozev er fljót­ur til svars:

„Einn stærsti mis­skiln­ing­ur­inn er sá, þegar gert er ráð fyr­ir að rúss­neska stjórn­in sé einn sam­eig­in­leg­ur hóp­ur fólks. Þetta er markaður. Þetta er markaður þar sem all­ir keppa á móti öll­um öðrum. Og það er nokkuð sem hefði verið hægt að nota til að jafn­vel stöðva stríðið fyrr.

Til dæm­is með því að ræða við ólíg­arka sem misstu allt sitt við upp­haf stríðsins. Bjóða þeim leið út úr sín­um per­sónu­legu aðstæðum. En vestrið gerði það ekki og jafn­vel í til­felli [Róm­ans] Abra­móvít­sj, þá sá ég að viðbrögð bresku rík­is­stjórn­ar­inn­ar voru þau að hann hefði haft sitt tæki­færi áður: „Hann valdi Pútín og nú ætl­um við ekki að gefa hon­um leið út.“

Ég held að það hafi verið rangt að gera, því það hefði verið hægt að stöðva stríðið með því að tala við marga þeirra á sama tíma.“

Reyndu að afsanna tylli­á­stæður

Blaðamaður mbl.is spyr Grozev hver séu mestu áhrif­in sem hann hafi séð, af um­fjöll­un Bell­ingcat í kjöl­far inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu.

„Ég myndi segja að jafn­vel áður en inn­rás­in hófst, þá höfðum við smá­veg­is áhrif. Ég vissi í des­em­ber­mánuði að stríð væri í und­ir­bún­ingi. Og það mátti einnig sjá í op­in­ber­um gögn­um, með því að skoða staðsetn­ingu herliða og svo fram­veg­is. Það var líka skýrt að rúss­neska rík­is­stjórn­in var að leita að „ca­sus belli“, ein­hverri tylli­á­stæðu til að heyja stríð.

Við vörðum fyrstu mánuðunum í að afsanna slík­ar mögu­leg­ar tylli­á­stæður, því það hefði verið miklu auðveld­ara fyr­ir Pútín að hefja stríð ef gerð hefði verið árás und­ir fölsku flaggi eða fjölda­gröf fund­ist eða álíka. Við ein­beitt­um okk­ur þess vegna að því að hrekja þess slags mál­flutn­ing áður en hann gat orðið trú­verðugur,“ seg­ir Grozev.

Alls hafa 450 lík fundist í fjöldagröf við úkraínska bæinn …
Alls hafa 450 lík fund­ist í fjölda­gröf við úkraínska bæ­inn Ísjúm. AFP

Sönn­un­ar­gögn hrann­ast upp 

„Eft­ir að stríðið hófst fel­ast mestu áhrif­in ef til vill í því að vita að það er að hrann­ast upp stafli sönn­un­ar­gagna, sem við erum að safna, og marg­ar lög­gæslu­stofn­an­ir, þar á meðal alþjóðadóm­stól­ar, hafa samið um not á. Þannig að við vit­um að við erum þegar að veita þeim sönn­un­ar­gögn.“

Grozev seg­ir Bell­ingcat hafa fundið og skrá­sett fleiri en 1.600 til­felli þar sem óbreytt­ir borg­ar­ar í Úkraínu hafa orðið fyr­ir skaða.

„Við köll­um það ekki stríðsglæpi, því það er ekki fyr­ir okk­ur til að bera kennsl á, en þetta eru til­vik þar sem að minnsta kosti einn borg­ari deyr eða verður fyr­ir al­var­leg­um skaða. Og við kom­um þess­um upp­lýs­ing­um beint, á hráu formi, eft­ir staðfest­ingu og staðar­ákvörðun, til lög­gæslu­yf­ir­valda. En upp úr þessu birt­um við ekki grein­ar, við ger­um þess­ar upp­lýs­ing­ar ein­ung­is aðgengi­leg­ar á vefn­um okk­ar, sem aðrir miðlar geta svo nýtt.“

Hann tek­ur einnig fram að blaðamenn Bell­ingcat leggi sig fram við að gefa sjálf­stæðum rúss­nesk­um miðlum fjölda viðtala, til að reyna að halda rúss­nesku þjóðinni upp­lýstri.

„Þú held­ur þeim ekki öll­um upp­lýst­um. Þú nærð kannski að tala til 20% þeirra. En þú ert þá að gefa þeim sann­leik sem þau geta svo notað til að ræða við ætt­ingja sína og vini, sem munu aldrei fylgj­ast með er­lend­um fjöl­miðlum. Mestu áhrif­in fel­ast kannski í því.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert