„Heimurinn stendur á krossgötum“

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, tókust í hendur á Balí í Indónesíu í morgun. Þar ræðast þeir við degi áður en alþjóðlega G20-ráðstefnan hefst þar á morgun. Báðir lögðu þeir áherslu á mikilvægi þess að leggja ágreining til hliðar og komast hjá frekari deilum.

„Heimurinn stendur á krossgötum,“ sagði Xi og hét því að fram færu „hreinskilnar“ viðræður um málefni sem snerta þessi tvö heimsveldi. 

„Heimurinn reiknar með því að Kína og Bandaríkin meðhöndli samband sitt á réttan máta,“ sagði hann.

Biden brosti breitt þegar hann heilsaði Xi og kvaðst vilja að Bandaríkin og Kína „leggi ágreining sinn til hliðar og komi í veg fyrir að samkeppni þróist út í deilu.“

Joe Biden (til hægri) ásamt Xi Jinping í morgun.
Joe Biden (til hægri) ásamt Xi Jinping í morgun. AFP/Saul Loeb

Í fyrsta sinn augliti til auglitis

Þetta var í fyrsta sinn sem leiðtogarnir tveir hittust augliti til auglitis eftir að Biden tók við forsetaembættinu.

G20-ráðstefn­an er hald­in á sama tíma og mat­ar- og olíu­verð hef­ur hækkað víða um heim vegna stríðsins í Úkraínu. Stríðið er þó ekki á op­in­berri dag­skrá ráðstefn­unn­ar. Búist er við því að Biden setji þrýsting á Kínverja vegna flugskeytatilrauna samherja þeirra frá Norður-Kóreu. 

Fyrr í morgun bárust fregnir um að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands sem verður viðstaddur ráðstefnuna, hefði verið fluttur á sjúkrahús. Hann vísaði því skömmu síðar á bug.

AFP/Saul Loeb
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert