Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem búsettur er í miðborg Kænugarðs í Úkraínu, segir í samtali við mbl.is að yfirvöld vari nú íbúa við mögulegum stórfelldum árásum Rússa á borgina. Þær séu yfirvofandi í dag, þriðjudag.
„Við erum búin að fá aðvaranir í allt kvöld um það að Rússar séu búnir að gera tilbúnar einhverjar flugvélar og að það séu 90% líkur á að það verði árás á morgun. Fólk eigi alls ekki að hunsa viðvörunarbjöllur og annað slíkt. Það er talað um að árásin verði stór – mjög stór,“ segir hann.
Árásir Rússa beinast nú nánast eingöngu að innviðum Úkraínumanna, þá sérstaklega rafmagns- og vatnsveitum að sögn Óskars.
„Ég held að um 90% árása hafa verið á borgaraleg skotmörk. Þá hafa þeir núna sérstaklega verið að ráðast á rafmagnsinnviði til að gera fólki lífið leitt.“
Hann segir að ástandið í Kænugarði sé búið að vera erfitt síðustu daga en stór hluti íbúa er án rafmagns. Rafmagnið er skammtað niður og hann nefnir að frá því klukkan fimm að morgni mánudags hafi hann og kona hans verið með rafmagn í samtals fjórar klukkustundir.
Þau hafa hita í íbúð sinni en það sé ekki veruleiki allra íbúa.
„Í Úkraínu er það þannig að það er svona hitaveita í hverju hverfi. Þegar árásirnar voru gerðar hérna 10. október þá reyndu þeir einmitt að ráðast á hitaveituna okkar en þeir hittu ekki.“
Óskar segir að íbúar hafi varann á nú meira en í sumar.
„Þá var fólk voðalega lítið að pæla í þessum loftvarnarflautum því þær glumdu allan daginn og það gerðist ekkert því að flest skeytin voru skotin niður. Þá voru þeir að skjóta nokkrum skeytum í einu – alltaf á eitt skotmark – en núna er það þannig að þeir senda kannski hundrað í einu og það er ekkert vitað hvert þessi skeyti eru að fara,“ segir hann og bætir við að flest flugskeytin séu skotin niður en þessi örfáu sem komast í gegn nái að gera mikinn skaða.
„Þetta er orðið mjög erfitt. Þegar rafmagn fer þá eru það ekki bara ljósin, það er allt annað. Það fer allt á hliðina þegar það er ekkert rafmagn.“
Óskar tekur fram að aðgangur að vatni sé einnig takmarkaður.
Um 7 til 14 dagar eru á milli árása að sögn Óskars.
„Það er sirka tíminn sem tekur að gera næstu árás klára.“
Hann segir að óvíst sé hversu mikið Rússar eigi eftir af flugskeytum.
„En þeir eiga nóg til held ég. Sum af þessum flugskeytum eru mjög nákvæm – geta hitt bara nánast á punktinn sem þau eru sett á – en sum af þeim eru með ferkílómeters skekkjumörk. Það er mjög alvarlegt af því að innan ferkílómeters getur verið barnaskóli eða sjúkrahús.“
Nokkrir tugir fólks hafi látist í síðustu árásum Rússa á borgina.
Spurður hvort þau hjónin kvíði deginum segir hann ástandið óþægilegt, „að vita ekki hvað gerist“.
Hann hafði áætlað að fara suður til Kerson í dag, þriðjudag, en segist uggandi með að skilja eiginkonuna eftir í myrkrinu.
„Þetta er sirka fimmta árásin í röð og það er náttúrlega ekkert vitað hvað gerist, en maður er kannski bara farinn að læra að lifa með þessari ógn.“