Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur velt upp þeirri hugmynd að „sérhæfður dómstóll“ skuli rétta yfir æðstu yfirmönnum Rússlands vegna stríðsins í Úkraínu.
Mörg þúsund manns hafa fallið í stríðinu og milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
„Á sama tíma og við höldum áfram að styðja Alþjóðastríðsglæpadómstólinn leggjum við til að stofnaður verði sérhæfður dómstóll, studdur af Sameinuðu þjóðunum, til að rannsaka árásarglæpi Rússa og sækja þá til saka,“ sagði von der Leyen.
Starfsmannastjóri úkraínska forsetaembættisins fagnaði hugmyndinni og sagði: „Rússar munu gjalda fyrir glæpi sína og eyðileggingu.“
Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrst þarf að yfirstíga lagalegar- og pólitískar hindranir.
Helsta vandamálið er að Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn hefur ekki lögsögu yfir „árásarglæpum Rússa“, þ.e. innrás þeirra í Úkraínu og stríðinu þar í landi, vegna þess að rússnesk stjórnvöld eru ekki aðildarríki að sáttmála dómstólsins.
Sá dómstóll getur þess vegna aðeins dæmt sérstök tilfelli stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu í Úkraínu. Jafnvel þótt það verður gert njóta Vladimír Pútín Rússlandsforseti, forsætisráðherra hans og utanríkisráðherra friðhelgi frá því að vera sóttir til saka á meðan þeir sitja í embætti.
Eina leiðin til að óska eftir aðstoð Alþjóðastríðsglæpadómstólsins vegna stríðsins í Úkraínu er með ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Sú leið er ómöguleg vegna Rússa sem eru þar með varanlega aðild og geta greitt atkvæði gegn því.
Von der Leyen leggur í staðinn til að dómstóll verði settur upp í landi ESB sem gæti tekist á við „árásarglæpi Rússa“ á sama tíma og stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu verða í höndum Alþjóðastríðsglæpadómstólsins.