Sanna Marin, forsætisráðherra Finna, sagði í dag að Evrópa væri ekki nógu „öflug“ til að geta mætt innrás Rússa í Úkraínu og að álfan hefði þurft að reiða sig á stuðning Bandaríkjanna. Þetta kemur fram hjá breska ríkissjónvarpinu, BBC, í dag.
Sanna Marin var í opinberri heimsókn til Ástralíu og hélt þar ræðu hjá Lowy Institute hugveitunni í Sydney. Í ræðunni sagði hún að nauðsynlegt væri að styrkja varnir Evrópu. „Ég verð að vera óþægilega hreinskilin við ykkur. Evrópa er ekki nógu sterk núna. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna.“
Sanna Marín sagði að það þyrfti að styrkja varnir Evrópu umtalsvert. Þegar Donald Trump var forseti Bandaríkjanna gagnrýndi hann iðulega Evrópulöndin í Atlantshafsbandalaginu fyrir að verja ekki meira fé til varnarmála. Árið 2020 fór u.þ.b. 3,7% landsframleiðslu Bandaríkjanna til varnarmála, en á sama tíma voru framlög Evrópulandanna í NATO og Kanada í málaflokkinn að jafnaði 1,77% af landsframleiðslu.
Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar hafa mörg Evrópusambandslönd og lönd Atlantshafsbandalagsins heitið því að auka framlög sín til varnarmála.
Formaður Lowy Institute hugveitunnar var hæstánægður með heimsókn finnska forsætisráðherrans og þakkaði henni á Twitter fyrir magnaða ræðu og góða viðkynningu.