25 handtekin, grunuð um að hafa skipulagt valdarán

Hópurinn er sagður hafa skipulagt árás á þinghúsið.
Hópurinn er sagður hafa skipulagt árás á þinghúsið. AFP/John Macdougall

Lögreglan í Þýskalandi handtók í morgun 25 manns sem grunaðir eru um að hafa skipulagt valdarán en talið er að þeir hafi ætlað að ráðast á þinghúsið í Berlín. Spiegel og Bild greina meðal annars frá. 

Samkvæmt þýskum miðlum tilheyra einstaklingarnir hægrisinnaðri öfgahreyfingu en þýskur maður sem kallaður er Heinrich XIII er grunaður um að vera einn af höfuðpaurunum.

Handtökur í þremur löndum

Talið er að um 50 menn og konur hafi verið hluti af hópnum sem sagður er hafa skipulagt valdaránið frá því í nóvember 2021. Þýska lögreglan hefur haft nánar gætur á honum vegna tengsla við ofbeldisfullar árásir og rasískar samsæriskenningar. Stór hluti af liðsmönnum hópsins eru fyrrverandi hermenn.

Talsmaður ríkissaksóknarans í Þýskalandi sagði að embættið væri ekki komið með nafn á hópinn enn sem komið er. 

Aðgerðir lögreglunnar í morgun voru umfangsmiklar og fóru fram víða um Þýskaland. Þá voru tveir handteknir í Austurríki og á Ítalíu. Lögreglan hyggst taka skýrslu af þeim sem eru í haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert