Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að landsvæði í Úkraínu á stærð við Kambódíu sé „mengað“ af jarðsprengjum og öðrum ósprungnum sprengjum. Hann óskar eftir langtímaaðstoð við að hreinsa upp landsvæðin.
Selenskí ávarpaði þingið í Nýja Sjálandi í kvöld í gegnum fjarfundabúnað þar sem hann lýsti innrás Rússa í Úkraínu sem „vistmorði“ sem myndi hafa langvarandi áhrif. Hann biðlaði til stjórnvalda í Wellington og til annarra til þess að veita aukna aðstoð.
„Í augnablikinu eru 174.000 ferkílómetrar af úkraínsku landsvæði sem er mengað af jarðsprengjum og ósprungnum sprengjum,“ sagði Selenskí.
Það er svipað stórt svæði og Kambódía, Sýrland eða Úrúgvæ.
„Það verður ekki raunverulegur friður fyrir neitt barn sem getur dáið vegna leyndra rússneskra vopna ætluð til að skaða fólk,“ sagði Selenskí.
Forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern gaf til kynna að nýsjálenska þjóðin væri tilbúin að aðstoða við hreinsunina og við að endurbyggja landið.
„Við styðjum þig þegar þú leitar friðar, en við munum einnig styðja þig þegar þú munt reisa landið við,“ sagði Ardern.
Ríkisstjórnin í landinu hét að auka útgjöld um tvær milljónir bandaríkjadala (285 milljónir króna) til mannúðaraðstoðar til þess að hjálpa Úkraínu í gegnum veturinn.