ESB búið að minnka gasnotkun um 20%

Skortur hefur verið á gasi í Evrópu eftir að Rússland …
Skortur hefur verið á gasi í Evrópu eftir að Rússland lokaði á útflutning til Evrópu til að svara fyrir viðskiptaþvinganir sem ríki Evrópu voru búin að beita gegn Rússlandi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. AFP

Lönd Evrópusambandsins hafa minnkað notkun á jarðgasi um 20 prósent á síðustu fjórum mánuðum ef miðað er við sama tímabil á undanförnum árum. Þetta er gert til að aðlagast orkuskorti vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. 

Er þetta töluvert meiri lækkun en lönd Evrópusambandsins sömdu um í ágúst en þá var samið um að stefna á fimmtán prósentum minni notkun á jarðgasi. Það er sagt að þetta sýni samstöðu Evrópusambandsins gegn Rússlandi sem hætti að flytja jarðgas til Evrópu til að mótmæla viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins.

Finnland sker sig úr sem það land sem hefur minnkað gasnotkun hvað mest en notkun á gasi þar í landi hefur minnkað um 53 prósent frá ágúst fram í nóvember miðað við sama tímabil frá 2017 til 2021.

Öll lönd Evrópusambandsins minnkuðu notkun sína á gasi nema tvö. Það voru Malta og Slóvakía en aukning þar var minni en tíu prósent.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert