Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er kominn til Bandaríkjanna. Hyggst hann hitta Joe Biden Bandaríkjaforseta í höfuðborginni Washington í dag og ávarpa Bandaríkjaþing.
Liðnir eru 300 dagar í dag frá því að innrás Pútíns í Úkraínu hófst.
Í Hvíta húsinu mun Biden kynna nýjan vopnapakka fyrir Úkraínumenn, að andvirði næstum tveggja milljarða bandaríkjadala, eða um 286 milljarða íslenskra króna. Loftvarnarkerfi með svokölluðum Patriot-flugskeytum er þar á meðal.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti mun einnig í dag hitta æðstu menn rússneska hersins til þess að meta stöðuna vegna stríðsins í Úkraínu og leggja línurnar fyrir næsta ár.