Kanada hefur gengið frá 19 milljarða kanadadala samningi, jafnvirði rúmlega 2.000 milljarða íslenskra króna, um kaup á 88 F-35-orrustuþotum frá Lockheed Martin-verksmiðjunum í Bandaríkjunum og er þar um að ræða stærstu fjárfestingu kanadíska flughersins í rúma þrjá áratugi.
Er nýju þotunum ætlað að leysa af hólmi flugflota CF-18-véla kanadíska flughersins sem margar hverjar eru orðnar rúmlega 40 ára gamlar og muna sinn fífil fegurri. Gerir kaupsamningur nágrannaþjóðanna ráð fyrir afhendingu fyrstu F-35-vélanna árið 2026 og að flotinn nýkeypti verði allur afhentur og starfhæfur á árabilinu til 2032 til 2034. Gera má ráð fyrir að líftími F-35-vélanna nái allt til ársins 2070.
„[F-35] er fullkomnasta orrustuþotan á markaðnum og rétti kosturinn fyrir land okkar,“ sagði Anita Anand varnarmálaráðherra á blaðamannafundi þegar kaupsamningurinn var kynntur og bætti því við að þotukaupin sköpuðu þjóðarbúinu um leið mikil verðmæti, til dæmis myndu 3.300 ný ársverk spretta af þessum nýja flugflota sem þarfnast mikillar viðhaldsvinnu.
Ríkisstjórn Justins Trudeau forsætisráðherra var í öndverðu á móti þotukaupunum en breytti svo afstöðu sinni eftir nokkurt þóf og gekk til útboðs þar sem Lockheed Martin-verksmiðjurnar urðu hlutskarpari en keppinautarnir Saab og Boeing.
„Kanadíska hernum er mikilvægt að hafa á að skipa orrustuþotum sem framleiddar eru á 21. öldinni,“ segir Stephen Saideman, prófessor í alþjóðasamskiptum við Carleton-háskólann í Ottawa og sérfræðingur í varnarmálum. Gagnrýnir Saideman hægagang kanadískra stjórnvalda við að kaupa nothæfar orrustuþotur, landið þurfi að vera í stakk búið til að grípa til varna á norðurslóðum.