Námufyrirtækið LKAB hefur fundið stærstu þekktu útfellingu sjaldgæfra jarðmálma í Evrópu í Kiruna nyrst í Svíþjóð. Talið er að vinna megi um eina milljón tonna úr námunni. Sænski ríkismiðillinn SVT greinir frá.
„Aðeins lítill hluti hefur verið rannsakaður en það er ljóst að við getum aflað nauðsynlegra hráefna til að hjálpa til við grænu umskiptin. Án slíkra náma verða engir rafbílar,“ segir Jan Moström, forstjóri LKAB.
Eins og Moström segir eru jarðmálmarnir sem fundist hafa á svæðinu í Kiruna meðal annars nauðsynlegir til framleiðslu á rafbílum og vindmyllum. Í dag koma þessir málmar mest frá Kína.
LKAB er með á teikniborðinu iðnaðargarð í Luleå með nýrri tækni til vinnslu steinefna á borð við fosfór og flúor sem byggir á núverandi námuvinnslu. Þar verða í framtíðinni til sjálfbærar vörur í stað þess að litið verði á steinefnin sem úrgang. Áætlað er að framleiðsla hefjist á árinu 2027 að sögn Leif Boström, forstöðumanns viðskiptasviðs hjá LKAB.