Fordæmdi Erdogan-brúðu

Eftirlíkingin af Erdogan við sænska ráðhúsið.
Eftirlíkingin af Erdogan við sænska ráðhúsið. Ljósmynd/Twitter

Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson fordæmdi í dag það tiltæki hóps Kúrda, Kúrdísku Rojava-nefndarinnar í Svíþjóð, að hengja brúðu í líki Recep Tayyip Erdogans Tyrklandsforseta upp á fótunum fyrir framan Ráðhúsið í Stokkhólmi og líkja þar með eftir þeim umbúnaði sem ítalska fasistaleiðtoganum Benito Mussolini var veittur eftir aftöku hans í apríl 1945.

Í samtali við TV4 sagði ráðherra „grínsviðsetningu aftöku lýðræðislega kjörins þjóðarleiðtoga“ grafalvarlegt mál en í gær var sendiherra Svíþjóðar í Ankara í Tyrklandi kallaður til samtals í kjölfar gjörningsins.

Ætlað að spilla fyrir NATO-umsókn

„Sagan sýnir okkur örlög einræðisherra,“ skrifaði kúrdíski hópurinn á Twitter-síðu sína og birti þar myndir af aftöku Mussolinis og Erdogan-brúðunni í Stokkhólmi.

Sagði Kristersson það gera athæfið enn alvarlegra að Svíar hefðu mátt horfa upp á tvo stjórnmálaleiðtoga sína myrta um dagana, þau Olof Palme forsætisráðherra og Önnu Lindh utanríkisráðherra. Enn fremur kvað hann tiltækinu ætlað að spilla fyrir umsókn Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu. „Svona hegðun er háskaleg öryggi Svíþjóðar,“ sagði ráðherra en tyrknesk stjórnvöld hafa hvatt umsóknarlöndin Svíþjóð og Finnland til að grípa til aðgerða gegn Kúrdum.

Meðal krafa Tyrkja er að Svíar framselji þeim Kúrda sem liggja undir grun tyrkneskra yfirvalda og sæki samtök á borð við Rojava-nefndina til saka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert