Sænska baráttukonan Greta Thunberg sendi stjórnmálaleiðtogum og leiðtogum úr viðskiptalífinu, sem eru staddir á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss, ádrepu í dag, en hún segir að það sé „fáránlegt að hlusta á þá á sama tíma og þeir stuðli að „eyðileggingu plánetunnar“.
Thunberg er nú mætt til Sviss tveimur dögum eftir að hafa tekið þátt í mótmælum gegn kolanámu í Þýskalandi, þar sem lögreglan hafði af henni afskipti tímabundið.
„Við erum núna stödd í Davos þar sem fólkið sem í raun og veru stuðlar langmest að eyðileggingu plánetunnar er einnig statt,“ sagði hin tvítuga Thunberg. Hún segir enn fremur að heimurinn eigi ekki að treysta á þennan hóp til að leysa málin.
Þá bætir hún við, að það sé fáránlegt að fólk hlusti frekar á fyrrnefnda leiðtoga í staðinn fyrir það fólk sem þurfi að gíma við loftslagsvána með beinum hætti.
„Án gríðarlegs utanaðkomandi þrýstings frá almenningi, þá mun þetta fólk ganga eins langt og það mögulega getur. Þau munu halda áfram að traðka á öðrum í eigin þágu,“ sagði Thunberg.