„Dómsdagsklukkan“ hefur aldrei verið nær miðnætti eftir að fræðimenn vísindaritsins, Bulletin of the Atomic Scientists (BPA), færðu vísana úr 100 sekúndum í miðnætti og yfir í 90 sekúndur í miðnætti.
Söguna bak við dómsdagsklukkuna má rekja aftur til ársins 1947 þegar hópur kjarnorkuvísindamanna kom saman í Chicago og útbjó „dómsdagsklukku“, sem átti að gefa til kynna hversu nærri heimurinn stæði hyldýpi kjarnorkustyrjaldar, eða „miðnættinu" í sögu mannkyns. Upphaflega var klukkan stillt á sjö mínútur í miðnætti.
Ákvörðunin um að færa vísana nú er tekin í ljósi stríðsins í Úkraínu, loftslagsvár og aukinnar hættu á kjarnorkustríði.
Á hverju ári tekur fagráð BPA ákvörðun um að færa vísana fram eða aftur, en í fagráðinu sitja meðal annars ellefu Nóbelsverðlaunahafar.
Klukkan var stillt á 100 sekúndur í miðnætti árið 2020 og og hafði þá aldrei verið nær miðnætti, fyrr en nú.
Hún var stillt lengst frá miðnætti árið 1991, eftir lok kalda stríðsins, er hún var stillt 17 mínútur í miðnætti.