Kyrylo Tymoshenko, næstráðandi á forsetaskrifstofu landsins, hefur sagt af sér embætti. Hann þakkaði Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, fyrir „tækifærið til að gera góðverk á hverjum einasta degi og á hverri einustu mínútu“.
Uppstokkun hefur verið boðuð innan ríkisstjórnar Úkraínu.
Tymoshenko hefur verið bendlaður við hneykslismál í tengslum við notkun hans á dýrum bílum. Hann hefur neitað því að hafa brotið af sér, að því er BBC greindi frá.
Fleiri háttsettir úkraínskir embættismenn tilkynntu um afsögn sína í morgun eftir að mútumál skók varnarmálaráðuneyti landsins, þar á meðal aðstoðarvarnarmálaráðherrann Vyacheslav Shapovalov.