Stefán Gunnar Sveinsson
Þýskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í kvöld að Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefði samþykkt að senda Leopard 2A6-orrustuskriðdreka til Úkraínu. Hann hefur mátt þola harða gagnrýni að undanförnu fyrir meintan hægagang.
Der Spiegel greindi fyrst frá ákvörðun Scholz, en samkvæmt heimildum þýska dagblaðsins Die Welt er þýski herinn að búa sig undir að senda eitt undirfylki af skriðdrekum, eða um 14 orrustuskriðdreka af gerðinni Leopard 2A6, til Úkraínu.
Þá verður öðrum ríkjum einnig leyft að senda sína orrustuskriðdreka af Leopard 2-gerð til Úkraínu. Pólsk stjórnvöld sóttu fyrr í dag formlega um útflutningsleyfi til þýskra stjórnvalda, sem höfðu sagt að svar myndi berast í þessari viku. Finnar og Spánverjar hafa einnig heitið því að senda Úkraínumönnum skriðdreka.
Ákvörðunin mun hafa verið tekin eftir að Scholz ræddi við Joe Biden Bandaríkjaforseta símleiðis í dag, en Bandaríkjamenn munu nú einnig íhuga að senda M1 Abrams-orrustuskriðdrekann til Úkraínu. Hann þykir þó flóknari í rekstri en Leopard-skriðdrekinn. Þá er til meira af Leopard 2-skriðdrekum í Evrópu.
Samkvæmt heimildum Die Welt ætla Þjóðverjar að senda 2A6, sem er nýjasta gerðin af Leopard 2-skriðdrekanum. Þykir það merkilegt, þar sem þeir eru mun nýrri en A4-gerðin, sem talið var líklegra að yrðu sendir. Heimildir Spiegel segja að skriðdrekarnir komi úr birgðageymslum þýska hersins, en að til lengri tíma verði þeir skriðdrekar, sem Úkraínumenn fái, sendir beint frá Rheinmetall-vopnaverksmiðjunum, sem framleiði þá.