Atli Steinn Guðmundsson
skrifar frá Tønsberg
Um eitt hundrað úkraínskir hermenn eru væntanlegir til Þrændalaga í Noregi með vorinu þar sem þeir munu gangast undir þjálfun, meðal annars í skotfimi fyrir leyniskyttur, en það er norska heimavarnaliðið sem hefur veg og vanda af þjálfuninni.
„Fyrst og fremst lít ég á þetta sem yfirlýsingu um traust,“ segir Jens Christian Junge, yfirmaður heimavarnaliðsins í Þrændalögum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Eins er ég þakklátur fyrir að okkur býðst þetta verkefni. Ég tel ákaflega mikilvægt að okkur gefist færi á að styðja Úkraínu í stríðinu við Rússland,“ heldur hann áfram.
Úkraínsku hermennirnir gangast víðar undir þjálfun því nú eru þeir staddir á Englandi í grunnþjálfun en framhaldið verður í Noregi þar sem þeir munu dvelja í fjórar til fimm vikur. Eftir það er að sögn Junge von á næsta hópi og svo koll af kolli. Hann reiknar með hermannahópum frá Úkraínu að minnsta kosti út árið en telur að verkefnið geti staðið lengur.
„Ég hugsa að við megum búa okkur undir að halda þessu áfram svo lengi sem stríðið varir og jafnvel lengur,“ segir hann við NRK.
Það verða liðsmenn heimavarnaliðsins sem kenna þeim úkraínsku, deild HV12 kemur þar fyrst að þjálfuninni en aðrar deildir gegna einnig hlutverki auk þess sem öll svið norska hersins, landher, sjóher og flugher, hafa fengið boð um að vera til aðstoðar ef svo ber undir.
„Við hlökkum til að hefja þetta. Þetta er forgangsverkefni hjá okkur af því sem er fram undan,“ segir Junge.
DN (greindi fyrst frá – læst áskriftargrein)