Útilokar að senda orrustuþotur til Úkraínu

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. AFP/Tobias Schwarz

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur útilokað að senda orrustuþotur til Úkraínu, nokkrum dögum eftir að hafa skuldbundið ríkið til að útvega skriðdreka.

Yfirvöld í Bandaríkjunum sögðust á fimmtudag ætla að ræða hugmyndina um að útvega þotur „mjög varlega“ við Úkraínumenn, sem hafa kallað eftir sendingu orrustuþota frá Vesturlöndum, að því er BBC greinir frá.

Scholz sagði í dag að áhersla væri lögð á afhendingu fjórtán þýskra skriðdreka af tegundinni Leopard 2, sem hann samþykkti á miðvikudag að senda til Úkraínu, auk þess að veita öðrum Evrópuþjóðum heimild til að senda slíka skriðdreka úr eigin birgðageymslum.

Ræðir reglulega við Pútín

Scholz ítrekaði að NATO væri ekki í stríði við Rússland. „Við munum ekki leyfa slíka stigmögnun.“

Þá staðfesti kanslarinn að hann ætti reglulega í samræðum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, en þeir ræddu síðast í síma í desember.

„Við þurfum að tala saman,“ sagði hann og bætti við að hann tæki alltaf fram að innrás Rússa í Úkraínu væri algjörlega óviðunandi og að aðeins brottflutningur rússneskra hersveita myndi leysa ástandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka