Oleksí Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, verður vikið úr starfi og Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, gerður að ráðherra í hans stað.
Þetta er haft eftir David Arakhamia, formanni Þjóns fólksins sem er flokkur Volodimír Selenskí forseta.
„Stríð ræður starfsmannastefnunni,“ sagði Arakhamia.
„Tími og aðstæður krefjast endurskipulagningar. Þetta er að gerast núna og mun halda áfram að gerast í framtíðinni,“ bætti hann við án þess að segja til um hvenær Budanov mun taka við embættinu.
Reznikov verður gerður að ráðherra atvinnumála en hann hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra frá því í nóvember árið 2021.