Svíar, sem voru fyrstir þjóða til að lögleiða kynleiðréttingaraðgerðir, hafa ákveðið að draga enn frekar úr hormónameðferðum ungmenna með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem þeim var úthlutað í við fæðingu. Er það gert vegna þess hve ásókn í slíkar meðferðir hefur aukist mikið.
Ungmennum, sem skilgreind hafa verið innan heilbrigðiskerfisins með kynáttunarvanda, hefur fjölgað mikið í Svíþjóð síðustu misseri og standa Svíar, líkt og margir aðrir, frammi fyrir því að þurfa að vega og meta ávinning eða skaða sem hlýst af því að veita eða veita ekki meðferð.
Samkvæmt tölum frá landlæknisembætti Svíþjóðar voru tæplega 9.000 einstaklingar greindir með kynáttunarvanda á árunum 1998 til 2021. Árið 2021 fengu 820 þessa greiningu. Mest virðist fjölgunin vera á meðal ungmenna á aldrinum 13 til 17 ára sem fæddust sem stúlkur. Í þeirra hópi hefur fjölgunin verið 1.500 prósent frá árinu 2008.
Í febrúar á síðasta ári var tekin ákvörðun um að bjóða ekki ungmennum upp á hormónameðferð nema í sérstökum tilfellum og að brjóstnámsaðgerðir unglingsstúlkna, sem vilja ganga undir kynleiðréttingarferli, yrðu settar á ís. Var ástæðan sögð vera vegna lítillar þekkingar og takmarkaðra rannsókna og því yrði að stíga varlega til jarðar.
Ungmenni, sem greind hafa verið með kynáttunarvanda, og vilja gangast undir kynleiðréttingarferli, hafa fengið svokallaða hormónablokkara til að fresta óvelkomnum líkamlegum breytingum sem fylgja kynþroskaskeiðinu.