Andrzej Duda, forseti Póllands, lét þau orð falla í viðtali við blaðamann BBC, að það væri mjög alvarlegt skref og jafnframt erfitt að taka ákvörðun um að senda Úkraínumönnum F-16 orrustuþotur.
Með þessum orðum skyggði forsetinn á vonir Vlodimír Selenskí, forseta Úkraínu, sem hefur opinberlega óskað eftir því að Evrópuþjóðir, einkum Frakkland og Þýskaland, leggi Úkraínu í té orrustuþotur.
Duda og Selenskí funduðu í vikunni, eftir að Selenskí hafði opinberlega lýst yfir óskum Úkraínu og kallaði hann orrustuþoturnar „vængi frelsisins.“
Það er vægast sagt vandkvæðum bundið að útvega Úkraínu orrustuþotur, að sögn Duda. Hann bendir á að pólski flugherinn megi ekki við því að missa út þotur, auk þess sem þær krefjist gífurlegs viðhalds. „Það er ekki nóg að senda þeim bara nokkrar þotur.“
Þá leggur hann áherslu á að þar sem Pólland sé NATO-aðildarríki þá myndi landið ekki taka ákvörðun upp á sitt eindæmi að senda orrustuþotur, heldur þyrfti slík ákvörðun að vera sameiginleg ákvörðun NATO.
Loks benti hann á að til staðar væru ákveðnar vangaveltur er lytu að því hvort slík aðstoð yrði til þess að NATO flæktist endanlega inn í átök Úkraínu og Rússlands og þá jafnvel með beinum hætti sem myndi enda með stríði við Rússland.
Fréttaskýrendum BBC þótti þessi ummæli Duda vega þungt í ljósi beiðni Selenskí í nýliðinni viku. Sér í lagi í ljósi þess að Pólland hefur hingað til verið eitt helsta stuðningsríki Úkraínumanna, og var Duda meðal þeirra sem þrýsti á önnur ríki að senda Úkraínumönnum skriðdreka þegar þeir óskuðu þess.