Dauðsföll rússneskra hermanna í þessum mánuði hafa aldrei verið fleiri síðan í fyrstu viku innrásarinnar í Úkraínu.
Samkvæmt gögnum frá Úkraínu deyja að meðaltali 824 rússneskir hermenn á dag í febrúar. Breska varnarmálaráðuneytið tekur undir það en bendir á að ekki sé unnt að staðreyna tölurnar. Ráðuneytið segir þetta þó líklega nákvæma þróun, að því er BBC greinir frá.
(4/5) The mean average for the last seven days was 824 casualties per day, over four times the rate reported over June-July 2022. Ukraine also continues to suffer a high attrition rate.
— Ministry of Defence 🇬🇧 (@DefenceHQ) February 12, 2023
Fráfarandi varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksí Resnikov, sagði í síðustu viku að búist væri við nýrri sókn Rússa í kringum 24. febrúar, en þá verður liðið ár frá upphafi innrásarinnar.
Ríkisstjórar í úkraínsku héruðunum Lúhansk og Dónetsk hafa fullyrt að sóknin sé þegar hafin. Einna hörðustu bardagarnir hafa verið í kringum Bakmút í austurhluta landsins.
Ljóst er að dánartíðnin í febrúar er rúmlega fjórfalt hærri en dánartíðnin í júní og júlí á síðasta ári, þegar að meðaltali 172 rússneskir hermenn fórust á degi hverjum. Úkraínski herinn fullyrðir að 137.780 rússneskir hermenn hafi látist frá því að stríðið hófst.
Breska varnarmálaráðuneytið bendir á að aukningin geti stafað af ýmsum þáttum. Þar á meðal skorti á þjálfuðu herliði, samhæfingu og fjármagni.