Þúsund milljarðar til Úkraínu

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra gýtur augunum að Trygve Slagsvold Vedum …
Jonas Gahr Støre forsætisráðherra gýtur augunum að Trygve Slagsvold Vedum fjármálaráðherra í Stórþinginu í morgun á meðan Úkraínuforseti flytur þakkarávarp sitt um fjarfundabúnað. AFP/Terje Pedersen

Norska Stórþingið hefur samþykkt að veita Úkraínu stuðningspakka sem nemur 75 milljörðum norskra króna, andvirði 1.075 milljarða íslenskra króna, og greiðist út á næstu fimm árum, til og með 2027.

Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, tók þátt í blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um fjarfundabúnað í morgun og flutti þar þakkarávarp. „Ég þakka ykkur, Norðmenn,“ hóf forsetinn ávarp sitt en Jonas Gahr Støre forsætisráðherra ávarpaði samkomuna einnig og lét þess þar getið að sjálfstæð ríki ættu rétt á að verja hendur sínar og þiggja aðstoð vinveittra þjóða við það.

Barátta Úkraínu einnig okkar barátta

„Stríð Rússlands við Úkraínu er brot gegn öllum grundvallarreglum sem Noregur heldur í heiðri. Þess vegna er barátta Úkraínumanna einnig okkar barátta,“ sagði forsætisráðherra á fundinum.

Selenskí sagði enn fremur að helsti munurinn á marsmánuði í fyrra og febrúar í ár væri sjálfsöryggi. Það tengdist því að hin frjálsa veröld gengi ekki á svig við gildi friðarins. Gildi Úkraínu og Noregs væru þau sömu.

Forsætisráðherra kynnir 75 milljarða norskra króna stuðningspakka til Úkraínu á …
Forsætisráðherra kynnir 75 milljarða norskra króna stuðningspakka til Úkraínu á blaðamannafundi í Stórþinginu í morgun. Hluti ríkisstjórnarinnar hlýðir á. AFP/Terje Pedersen

„Þess vegna erum við sameinuð í varnarbaráttu okkar. Þess vegna deilum við sigri framtíðarinnar sem verður okkar trausti grundvöllur öryggis um allan heim,“ sagði forsetinn.

Breið pólitísk samstaða reyndist á Stórþinginu um stuðninginn við Úkraínu sem hvort tveggja mun ganga til varnarmála og uppbyggingar á borgaralegum vettvangi. Enn fremur hyggjast norsk stjórnvöld styrkja ríki sem óbeint hafa orðið fyrir barðinu á stríðinu í Úkraínu.

NRK

Aftenposten

VG

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert