Bókaútgáfan Puffin endurskrifar nú bækur eftir höfundinn Roald Dahl. Eftir Dahl liggja þekktar barnabækur á borð við Matthildur, Kalli og súkkulaðiverksmiðjan og Jakob og risastóra ferskjan.
Ástæða þess að bækurnar eru nú endurskrifaðar er til að fjarlægja orð og hugtök sem útgefandinn álítur móðgandi eða úrelt.
Puffin hefur ráðið til sín svokallaða „viðkvæmni lesendur“ til þess að endurskrifa stóra hluta bókanna. Að sögn útgáfunnar er þetta gert til að tryggja að allir lesendur geti haldið áfram að njóta bókanna í dag og til framtíðar.
Breska dagblaðið Guardian greinir frá.
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á útlitslýsingum persóna í nýjum útgáfum bókanna. Sem dæmi hefur orðinu „feitur“ verið skipt út fyrir orðið „heljarmikill“ í bókinni Kalli og súkkulaðiverksmiðjan. Orðin lýsa persónunni August Gloop.
Talið er að breytingarnar hlaupi á hundruðum. Þá hefur nýjum texta verið bætt við þann texta semDahl skrifaði upprunalega.
Rétthafi höfundarréttar bóka Dahls, Roald Dahl Story Company, sagði í yfirlýsingu að það væri ekki óeðlilegt að endurskoða texta þegar nýjar útgáfur eru prentaðar. Þá segir fyrirtækið að breytingarnar hafi verið smáar og vandlega íhugaðar.
Sem dæmi um breytingar á milli útgáfna er hægt að nefna að í fyrri útgáfum af bókinni Jakob og risastóra ferskjan syngur margfætlan: „Sponge frænka var hræðilega feit, og rosalega hvapleg. Spiker frænka var þunn eins og vír og þurr eins og bein nema þurrari.“
Þessi texti hefur nú verið fjarlægður en í hans stað stendur: „Sponge frænka var viðbjóðslega gömul og dýrsleg og átti skilið að vera kramin undir ávextinum. Spiker frænka var margt af því sama og á skilið hálfa sökina.“
Þá hefur kynorðum einnig verið breytt á ýmsum stöðum en sem dæmi var frú Trunchbull úr bókinni Matthildur lýst sem ógnvekjandi konu í fyrri útgáfum en er nú lýst sem ógnvekjandi kvenmanni.
Einnig hefur kynhlutlausum hugtökum verið bætt við á sumum stöðum. Sem dæmi er úmpalúmpunum í Kalla og súkkulaðiverksmiðjunni ekki lýst sem smávöxnum mönnum lengur heldur sem smávöxnu fólki.