Volodimír Selenski forseti Úkraínu sagði Rússa ekki eiga nokkra möguleika á að vinna stríðið í Úkraínu eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti lofaði auknum vopnasendingum til landsins í óvæntri heimsókn til Kænugarðs.
„Þetta er ótvírætt merki um að tilraunir Rússa til að vinna munu ekki bera neinn árangur,“ sagði Selenskí og átti þar við heimsókn Bidens til höfuðborgarinnar og yfirlýsinga hans.
„Saman munum við vernda borgirnar okkar og fólkið okkar fyrir ógninni af hálfu Rússa,“ bætti hann við.
Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Úkraínumönnum fjárhagsaðstoð sem nemur 5,5 milljörðum bandaríkjadala, eða um 800 milljörðum króna. Fumio Kishida forsætisráðherra landsins greindi frá þessu.
Síðar í vikunni verður ár liðið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu.
„Það er enn þörf á því að aðstoða fólk sem hefur misst lífsviðurværi sitt vegna stríðsins og einnig á því að endurreisa innviði sem hafa verið eyðilagðir. Við höfum ákveðið að útvega viðbótarfjárhagsaðstoð upp á 5,5 milljarða bandaríkjadala,“ sagði ráðherrann.