„Að einhver skuli framkvæma þessa ritskoðun fyrir hönd okkar tel ég vera háskalega þróun,“ segir norski listsagnfræðingurinn og rithöfundurinn Tommy Sørbø í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og gagnrýnir þar harðlega þá ákvörðun nýja Þjóðlistasafnsins í Ósló, Nasjonalmuseet, að koma málverki norska listmálarans Christians Krohgs, Leifur Eiríksson uppgötvar Ameríku, fyrir í geymslu í kjallara safnsins.
Safnið hefur nú, eftir að málið komst í hámæli, hengt málverkið upp í einu af tugum sýningarrýma nýja húsnæðisins sem opnaði með glæsibrag í fyrrasumar, eins og Morgunblaðið fjallaði þá um, en kjallaravistina rökstuddu talsmenn safnsins með því að nýlendustefna væri hafin upp til skýjanna í söguefni verksins, það sýndi flutninga Norðmanna vestur um haf í rómantískum bjarma. Svo sagði Stina Högkvist deildarstjóri að minnsta kosti við Aftenposten.
Málverkið var á sínum tíma, árið 1900, gjöf til listasafnsins frá Minningarstofnun Leifs Eiríkssonar í Chicago og hékk í öndvegi í fyrra húsnæði safnsins.
Högkvist biðst nú innilega velvirðingar og sem fyrr segir hefur verkið fengið virðingarverðari dvalarstað á safninu þar sem það verður nú til sýnis um fjögurra vikna skeið.
„Ég leggst bara kylliflöt. Þetta var fljótfærnisleg og vanhugsuð athugasemd sem kastað var fram í hálfkæringi,“ skrifar deildarstjórinn um nýlendustefnurökin í svari til NRK og kveður þau alls ekki sína skoðun.
Sagnfræðingurinn Sørbø segir það ekki verst að safnið hafi flutt Krohg í kjallarann, öðru nær, slíkt gerist á öllum söfnum. Það sem svíði mest séu rökin fyrir þessum flutningum. Þau segir hann skelfileg og úr öllum takti við söguna. Þar fari hrein ritskoðun og væru rök Þjóðlistasafnsins í heiðri höfð á öðrum söfnum fyndist varla það málverk sem þar mætti hanga á vegg. Rembrandt, Caravaggio og Michelangelo færu allir beint í kjallarann.
„Við erum að tala um þjóðarsafn. Með öllu sem því fylgir. Þar ættu táknmyndir þjóðarinnar því að vera í heiðri hafðar. Þær eiga að vera til umræðu,“ er meðal þess sem Agnes Moxnes, fyrrverandi menningarálitsgjafi NRK, ritar á Facebook-síðu sína, allt annað en sátt. Það sé ekki hlutverk Þjóðlistasafnsins að setjast í dómarasæti yfir einstökum verkum.
„Maður getur rætt um list. Maður getur horft á hana. Maður getur sýnt hana og spurt aðra álits. En að setja hana í skammarkrókinn? Nei,“ skrifar Moxnes um þetta umdeilda ferðalag Leifs Eiríkssonar niður í kjallara og í dag upp á vegg í sýningarsal á nýjan leik.