Verða að vera tilbúin að prófa kjarnorkuvopn

Ávarpi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í dag var sjónvarpað.
Ávarpi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í dag var sjónvarpað. AFP/Sergei Savóstjanov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fór um víðan völl í ávarpi sínu í morgun en hann talaði í tæplega tvær klukkustundir. 

Hann sagði að Rússland yrði að vera tilbúið til þess að prófa kjarnorkuvopn ef Bandaríkin geri það. Þá sagði hann að ríkið hefði dregið sig úr þátttöku SORT-afvopnunarsamnings Bandaríkjanna og Rússlands sem var undirritaður árið 2002. 

Talsmenn Hvíta hússins í Bandaríkjunum greindu frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti myndi hlusta á ræðu Pútín og aðlaga ávarp sitt, sem hann flytur síðar í dag í Póllandi, eftir að hann hefur heyrt Rússlandsforseta tala. 

Pútín hóf ávarpið á að segja að hann væri að ávarpa þjóðina á flóknum umbreytingartímum fyrir Rússland og að hver og einn Rússi bæri mikla ábyrgð. 

Líkt og áður, talaði hann um „sérstöku aðgerðina“ sem á sér stað í Úkraínu, en Pútín hefur forðast að tala um stríðsástand alveg síðan innrásin hófst fyrir tæplega ári síðan. 

Hann sagði Úkraínumenn bíða eftir aðstoð Rússa og að barist væri við nasista og áróður Úkraínustjórnar. 

Friðsamar aðgerðir

Pútín sagði aðgerðirnar í Donbas-héraði í austurhluta landsins vera friðsamar. 

„Við ætlum að gera allt í okkar valdi til þess að leysa þessa deilu á friðsaman máta, semja um friðsamlega leið út úr þessum erfiðu átökum,“ sagði hann og bætti við að Vesturlönd hefðu ekki sömu hugmyndir. 

Pútín sakaði Vesturveldin um að hafa byrjað stríðið og að Rússar þyrftu að beita valdi til að stöðva það. Áhorfendur í sal klöppuðu ákaft við þessari staðhæfingu forsetans.

Fjöldi fólks fylgdist með ávarpi forsetans í Moskvu, höfuðborg Rússlands.
Fjöldi fólks fylgdist með ávarpi forsetans í Moskvu, höfuðborg Rússlands. AFP/Mikhaíl Metsel/Sputnik

Hann sagði að Vesturlönd opni leið fyrir nasista, líkt og á fjórða áratugnum, og sagði að síðan á 19. öld hafa Vesturlönd reynt að taka „söguleg svæði“ Rússlands af þeim, það er að segja svæði „sem kallast nú Úkraína“. 

Þá þakkaði Pútín hermönnum og öllum þeim sem hafa aðstoðað Rússa við „sérstöku aðgerðina“, þar á meðal kennurum, bændum og byggingarverkamönnum. 

Pútín sagði mikilvægt að hermenn fengu 14 daga frí.

„Þeir kenna Rússum um allt“

Eftir að hafa fordæmt Vesturveldin í meira en 20 mínútur sneri Pútín sér að réttindum samkynhneigðra. 

„Fjölskylda þýðir samband á milli manns og konu,“ sagði hann og bætti við að allir helgir textar séu sammála sér. Áhorfendur klöppuðu einnig ákaft við þessari skoðun Pútín.

Hann sagði Vesturlönd auglýsa misnotkun barna og barnagirnd „sem eitthvað venjulegt“ og að prestar væru neyddir til að blessa samkynja hjónabönd. 

Fjölskylda fylgist með ávarpi Pútín.
Fjölskylda fylgist með ávarpi Pútín. AFP/Júrí Kadobnov

Þá sneri hann sér aftur að stríðinu og lofaði aðskilnaðarsinnum í héruðunum Dónetsk og Lúhansk að héruðin yrðu innlimuð í Rússland. 

Pútín sagðist ekki geta beðið eftir „langþráðum frið til þess að héruðunum yrði skilað til heimalandsins“. 

Pútín snerti einnig á áhrifum stríðsins á efnahagsástand heimsins. Hann sagði refsiaðgerðir Vesturlanda hafa lítil áhrif sem myndu ekki áorka neitt og að efnahagsástand Rússlands væri gott miðað við aðstæður. 

„Þeir kenna Rússum um allt,“ sagði forsetinn. 

Pútín lauk ræðu sinni á að segja að sannleikurinn væri Rússlandi í vil áður en þjóðsöngurinn var spilaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert