Rússar, sem hertóku Maríupól í maí síðastliðnum, hafa hafið mikla endurskipulagningu á borginni með það fyrir augum að eyða ummerkjum úkraínskrar menningar og byggja upp rússneska fyrirmyndarborg.
Borgin Maríupól, í austurhluta Úkraínu hefur verið á valdi Rússa frá því í maí síðastliðnum, eftir harða bardaga um yfirráð yfir borginni. Eftir að bardögum lauk blasti gríðarleg eyðilegging við borgurunum, en nærri helmingur bygginga í borginni höfðu orðið fyrir skemmdum. Eyðileggingin hefur þó ekki hætt eftir að Rússar tóku yfir borgina.
Sky News greinir frá því að minnst hundrað byggingar hafi verið jafnaðar við jörðu eftir að Rússar hertóku Maríupól. Þrátt fyrir mikla eyðileggingu var hægt að laga stóran hluta þeirra bygginga sem skemmdust í árásinni á borgina. Í stað þess að gera það eru margar byggingarnar rifnar niður og stefnt að því byggja nýjar.
Allt er þetta liður í mikilli endurskipulagningu Maríupól, sem miðar að því að byggja upp fyrirmyndarborg undir stjórn Rússa um komandi ár og áratugi. Nýtt borgarskipulag nær til ársins 2035, en það er um það leyti sem gert er ráð fyrir því að borgin hafi náð sama íbúafjölda og fyrir stríðið.
Þetta nýja borgarskipulag nær m.a. til stórs hluta miðborgarinnar, sem samanstendur að mestu leyti af lágreistum gömlum húsum. Nýja skipulagið kveður á um að þessum húsum verði skipt út fyrir stærri og lengri blokkir í rússneskum stíl.
Allt er þetta liður í að ýta meira en 300 ára sögu Maríupól til hliðar. Eitt af því fyrsta sem var fjarlægt eftir hernámið var minnisvarði um Holodomor, skipulagða hungursneyð sem olli dauða milljóna Úkraínumanna snemma á fjórða áratug 20. aldar, þegar Úkraína var hluti af Sovíetríkjunum. Einnig var mynd af stúlku sem missti fótinn í árás aðskilnaðarsinna á Maríupól árið 2015 fjarlægð. Um var að ræða mynd sem máluð var á stóran blokkarvegg þar sem stúlkan, sem einnig missti móðir sína í árásinni, heldur á bangsa. Málað hefur verið yfir myndina og mynd af rússneska fánanum sett á vegginn.
Ein af byggingunum sem var eyðilögð í árásum Rússa á borgina var leikhúsið sem stóð í miðborginni, en það var byggt árið 1878. Yfir þúsund óbreyttir borgarar leituðu skjóls innan byggingarinnar í mars, þegar árásir á borgina stóðu hátt. Skrifað var „BÖRN“ stórum stöfum fyrir utan bygginguna til að hvetja innrásarliða til að ráðast ekki á bygginguna. Allt kom þó fyrir ekki og byggingin var sprengd þann 16. mars 2022, með þeim afleiðingum að hundruð manna týndu lífi.
Samdægurs var gerð árás á sögufræga klukkuturnsbyggingu sem stóð við Friðarstræti (e. Peace Avenue). Nafni götunnar var breytt eftir að Rússar náðu yfirráðum yfir borginni, en gatan heitir núna Lenínstræti (e. Lenin Avenue).
Einnig stendur til að breyta Azovstal-stálverksmiðjunni, þar sem mikilvæg hergagnaframleiðsla fór fram fyrir úkraínska herinn og var síðasta vígi Úkraínumanna í borginni, í vistvænan tækniþekkingargarð.
Fyrrum íbúar Maríupól, sem flúðu innrásina, telja að þetta nýja skipulag sé að miklu leyti gert til þess að hylma yfir þá glæpi sem Rússar frömdu meðan árásin á borgina átti sér stað. Sömuleiðis sé þetta liður í að eyða ummerkjum um menningu borgarinnar fyrir hernám Rússa. Allt sé þetta hluti af áróðri Rússa.
Brottfluttu íbúarnir gagnrýna að ekki sé sett í forgang að hjálpa því fólki sem enn býr í skemmdum byggingum, sem ekki hafa aðgang að rafmagni, húshitun eða rennandi vatni.
Liður í yfirtöku Rússa á Maríupól eru endurskipulagning menntakerfisins. Kennarar hafa verið sendir í þjálfun til Rússlands og úkraínskum skólabókum skipt út fyrir rússneskar skólabækur. Börn eru einnig hvött til þess að fara í herþjálfun. Fyrrum íbúi segir þetta lið í að útrýma úkraínskri menningu í borginni.
Alexandra Xanthaki, sérfræðingur hjá Sameinuðu Þjóðunum í menningarrétti, segir í samtali við Sky News, að aðgerðir Rússa stangist á við alþjóðamannréttindalög. Ólöglegt sé að nota menningu svæða í áróðri og að skylda sé að viðhalda menningararfleið svæða, eins og unnt er. Nauðsynlegt sé að taka tillit til menningar og sögu svæða, þegar þau eru byggð upp í kjölfar stríðsátaka.