Rússar hyggjast taka yfir Hvíta-Rússland fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í skjali sem líklegt þykir að komi frá Kreml, en fjöldi bandarískra og evrópskra fjölmiðla hefur skjalið undir höndum.
Á meðan að heimurinn horfir upp á stríð Rússa í Úkraínu, virðist ríkisstjórnin í Kreml vera með frekari landvinninga í huga. Í skjalinu er að finna ýtarlega áætlun þar sem útlistað er hvernig Rússar ætla sér að taka yfir stjórnmál, efnahag og her Hvítrússa.
Áætlunin nær til ársins 2030, en þá stefnir Rússland að því að hafa tekið yfir Hvíta-Rússland og stofnað sameiginlegt ríki. Skjalið fjallar um þrjá þætti Hvítrússnesks þjóðlífs sem Rússar hyggjast ná tökum á, þ.e. stjórn- og hermál, efnahagslífið og viðskipti, og samfélagsmál.
Fyrsta skrefið á sviði stjórn- og hermála er að styrkja jákvæð viðhorf gagnvart Rússlandi, koma í gegn stjórnarskrárbreytingum sem þjóna Rússum, styrkja andstöðu í garð NATO og halda sameiginlegar heræfingar með Hvítrússum.
Næst hyggjast Rússar auka viðveru hersins í Hvíta-Rússlandi, auðvelda Hvítrússum að fá rússnesk vegabréf og undirbúa framleiðslu mikilvægra hergagna fyrir hvítrússneska herinn í Rússlandi.
Lokaskrefið á sviði stjórnmálanna er svo að samþætta landamæra- og hermálastefnu, skapa sameiginlega stjórn yfir hernum, hefja framleiðslu mikilvægra hergagna fyrir Hvítrússa í Rússlandi og að lokum stofna sameinaða ríki Rússlands og Hvíta-Rússlands.
Á sviði samfélagsmála hyggjast Rússar styrkja góðgerðasamtök sem eru vilhöll Rússum í Hvíta-Rússlandi, auka menningarleg ítök Rússa, sérstaklega meðal barna og ungmenna og opna vísinda- og menningarmiðstöðvar. Mikilsverðast á því sviði er þó áætlanir Rússa að taka yfir hvítrússneska fjölmiðla og tryggja yfirburðastöðu Rússnesku yfir Hvítrússnesku, en í dag eru bæði tungumálin töluð í Hvíta-Rússlandi.
Í efnahags- og viðskiptalífinu stefna Rússar á að auka viðskipti milli landanna, með því að fella niður viðskiptahindranir og samþætta lagaumhverfið. Einnig ætla þeir að þvinga Hvítrússa til að nota rússneskar hafnir til útflutnings, frekar en hafnir í Póllandi eða Eystrasaltsríkjunum. Að lokum stefna Rússar að því að kynna sameiginlegan gjaldmiðil, eitt tolla- og skattsvæði og aðlaga hvítrússneskan orkuiðnað að rússneskum markaði.
Sérfræðingar í Austur-Evrópufræðum segja þetta samkvæmt þeim markmiðum sem Rússar hafa haft allt frá því að Hvíta-Rússland var sjálfstætt árið 1990.
Það sem sé þó ólíkt með Hvíta-Rússlandi og Úkraínu er að í stað þess að nota herafla líkt og í Úkraínu, telja Rússar duga að nota þvinganir gagnvart Hvítrússum.