„Úkraína verður að sigra“

Vegfarandi leggur blóm á fótstall styttu af úkraínska skáldinu og …
Vegfarandi leggur blóm á fótstall styttu af úkraínska skáldinu og listamanninum Taras Sjevtsjenkó í Almaty í Kasakstan nú þegar stríðið í Úkraínu hefur geisað í eitt ár. AFP/Ruslan Pryanikov

„Í 365 daga hefur þetta óréttlætanlega, tilefnislausa og ólögmæta innrásarstríð valdið ómældum þjáningum, dauðsföllum og eyðileggingu af stærðargráðu sem ekki hefur sést í álfunni síðan í síðari heimsstyrjöld.“

Þetta skrifa forsætisráðherrar allra norrænu ríkjanna í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir senda frá sér í dag í tilefni þess að ár er liðið frá innrás Rússa í Úkraínu. Segir þar að milljónir hafi flúið heimili sín, fjölskyldum hafi verið sundrað og skelfilegar árásir á óbreytta borgara og mikilvæga innviði bitni mest á viðkvæmustu hópunum.

„Við stöndum heilshugar með úkraínsku þjóðinni sem sýnt hefur aðdáunarvert hugrekki og þrautseigju og fært miklar fórnir. Eins lengi og þörf krefur munum við veita Úkraínu pólitískan, hernaðarlegan og efnahagslegan stuðning auk mannúðaraðstoðar,“ segir því næst í yfirlýsingu ráðherranna sem segja nauðsynlegt að varanlegur friður komist á í Úkraínu.

Skelfileg og kerfisbundin brot

Rússland eitt geti bundið enda á stríðið með því að draga heri sína til baka og krefjast ráðherrarnir tafarlauss brottflutnings rússneskra hersveita frá Úkraínu. „Friður verður að byggja á réttlæti og ábyrgðarskyldu. Upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi, þ.m.t. nauðganir, eru bara eitt dæmi um skelfileg og kerfisbundin brot rússneskra hersveita á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum.“

Segja höfundar yfirlýsingarinnar stríðið fyrst og fremst árás á þau grunngildi sem friður og öryggi í heiminum öllum byggi á. Brot gegn alþjóðalögum á einum stað ógni öryggi alls staðar. Áframhaldandi stríðsrekstur Rússlands sé ógn við lýðræði, brot á mannréttindum og grafi undan réttarríkinu.

„Þessi grunngildi þarf að verja. Barátta Úkraínu er okkar barátta. Úkraína verður að sigra,“ eru lokaorðin.

Yfirlýsing ráðherranna í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert