Faraldurinn líklegast byrjað á rannsóknastofu

Frá borginni Wuhan fyrr á árinu, þar sem faraldurinn hófst …
Frá borginni Wuhan fyrr á árinu, þar sem faraldurinn hófst fyrir rúmum þremur árum. AFP

Bandaríska orkumálaráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að faraldur kórónuveirunnar á líklegast upptök sín að rekja til leka af tilraunastofu.

Þetta kemur fram í leynilegri skýrslu sem nýlega var afhent Hvíta húsinu og mikilvægum þingmönnum á Bandaríkjaþingi.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal greinir frá þessu í dag.

Skipar sér í lið með FBI

Í umfjöllun blaðsins segir að í nýju skýrslunni sé varpað ljósi á hvernig ólíkir angar bandaríska njósnasamfélagsins hafa komið að mismunandi niðurstöðum varðandi uppruna faraldursins.

Orkumálaráðuneytið skipar sér nú í lið með alríkislögreglunni FBI, sem einnig hefur fullyrt að veiran breiddist líklega út eftir óhapp á kínverskri rannsóknastofu.

Fjórar aðrar stofnanir telja að veiran hafi átt náttúrulegan uppruna og tvær til viðbótar eru á báðum áttum, að sögn blaðsins.

Vísindaleg sérfræðiþekking innan ráðuneytisins

Þessi niðurstaða ráðuneytisins er reist á nýjum gögnum. Þykir hún merkileg í því ljósi að innan veggja ráðuneytisins er mikil vísindaleg sérfræðiþekking og einnig vegna þess að undir ráðuneytið heyrir net bandarískra rannsóknastofa, en sumar þeirra fást við háþróaðar líffræðirannsóknir.

Dagblaðið hefur eftir fólki sem lesið hefur skýrsluna að ráðuneytið leggi ekki mikið traust á sitt eigið mat.

Alríkislögreglan komst eins og áður sagði að þeirri niðurstöðu að leki af rannsóknastofu hefði valdið faraldrinum. Lagði hún svokallað „miðlungstraust“ á það mat sitt og hefur haldið sig við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert