Faraldurinn líklegast byrjað á rannsóknastofu

Frá borginni Wuhan fyrr á árinu, þar sem faraldurinn hófst …
Frá borginni Wuhan fyrr á árinu, þar sem faraldurinn hófst fyrir rúmum þremur árum. AFP

Banda­ríska orku­málaráðuneytið hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar á lík­leg­ast upp­tök sín að rekja til leka af til­rauna­stofu.

Þetta kem­ur fram í leyni­legri skýrslu sem ný­lega var af­hent Hvíta hús­inu og mik­il­væg­um þing­mönn­um á Banda­ríkjaþingi.

Banda­ríska dag­blaðið Wall Street Journal grein­ir frá þessu í dag.

Skip­ar sér í lið með FBI

Í um­fjöll­un blaðsins seg­ir að í nýju skýrsl­unni sé varpað ljósi á hvernig ólík­ir ang­ar banda­ríska njósna­sam­fé­lags­ins hafa komið að mis­mun­andi niður­stöðum varðandi upp­runa far­ald­urs­ins.

Orku­málaráðuneytið skip­ar sér nú í lið með al­rík­is­lög­regl­unni FBI, sem einnig hef­ur full­yrt að veir­an breidd­ist lík­lega út eft­ir óhapp á kín­verskri rann­sókna­stofu.

Fjór­ar aðrar stofn­an­ir telja að veir­an hafi átt nátt­úru­leg­an upp­runa og tvær til viðbót­ar eru á báðum átt­um, að sögn blaðsins.

Vís­inda­leg sér­fræðiþekk­ing inn­an ráðuneyt­is­ins

Þessi niðurstaða ráðuneyt­is­ins er reist á nýj­um gögn­um. Þykir hún merki­leg í því ljósi að inn­an veggja ráðuneyt­is­ins er mik­il vís­inda­leg sér­fræðiþekk­ing og einnig vegna þess að und­ir ráðuneytið heyr­ir net banda­rískra rann­sókna­stofa, en sum­ar þeirra fást við háþróaðar líf­fræðirann­sókn­ir.

Dag­blaðið hef­ur eft­ir fólki sem lesið hef­ur skýrsl­una að ráðuneytið leggi ekki mikið traust á sitt eigið mat.

Al­rík­is­lög­regl­an komst eins og áður sagði að þeirri niður­stöðu að leki af rann­sókna­stofu hefði valdið far­aldr­in­um. Lagði hún svo­kallað „miðlungs­traust“ á það mat sitt og hef­ur haldið sig við það.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert