Réttað yfir lögmanninum sem er sakaður um morð

Alex Murdaugh.
Alex Murdaugh. AFP/Hampton County Detention Center

Fjölmiðlar vestanhafs fylgjast nú grannt með réttarhöldum yfir lögmanninum Alex Murdaugh, sem ákærður er fyrir morðin á eiginkonu sinni og syni. 

BBC greinir frá því að Murdaugh-fjölskyldan hafi verið mjög valdamikil í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum og átti eina stærstu og virtustu lögmannsstofu í suðurhluta ríkisins. Þá hafa þrjár kynslóðir Murdaugh-manna gengt embætti saksóknara. 

„Við þekktum þau öll. Þau höfðu völd. Og þau tóku þau of langt,“ sagði þjónustustúlka í bænum Hampton, þar sem lögmannsskrifstofa fjölskyldunnar er, en hún vildi ekki láta til nafns síns getið. 

Dularfullt og flókið mál

Réttarhöldin yfir Murdaugh hafa staðið yfir í fimm vikur, en í liðinni viku bar hann sjálfur vitni. 

Skýrslutökur yfir Murdaugh tóku nærri tíu klukkustundir og játaði hann þar að hafa logið að lögreglunni við rannsókn málsins. Hann neitar því þó staðfastlega að hafa myrt eiginkonu sína, Maggie, og son sinn, Paul, í júní árið 2021. Murdaugh var handtekinn fyrir morðin tæplega ári eftir að þau áttu sér stað.

Saksóknarar vilja meina að hann hafi framið morðin til að hylma yfir umfangsmikinn fjárdrátt hans.

Hann er einnig ákærður fyrir um 100 brot sem tengjast fjárdrætti en Murdaugh játaði fyrir dóminum með tárvot augu að hann hafi stolið milljónum dollara til þess að fjármagna verkjalyfjafíkn sína. Murdaugh sagðist sjá eftir svikunum en að hann hefði ekki haft val. Hann viðurkenndi að á árinu 2019 hafi hann stolið um 3,7 milljón dollurum, eða um 540 milljónum króna. 

Þá hefur Murdaugh einnig stundað tryggingarsvindl, meðal annars vegna andláts ráðskonu fjölskyldunnar sem lést á heimili fjölskyldunnar árið 2018. Fjölskylda konunnar fékk ekki krónu af líftryggingunni heldur fór peningurinn allur í vasa Murdaugh. 

Ótal hlaðvörp hafa verið gerð um mál Murdaugh fjölskyldunnar og þá hafa Netflix og HBO Max einnig búið til heimildarmyndir um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert