Lögreglan í Ósló fjarlægði með valdi þá mótmælendur sem mótmæltu áframhaldandi notkun vindmyllna og flutti á brott í lögreglubílum. Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins NRK.
Þrettán norskir aðgerðasinnar voru við mótmæli í móttökuanddyri olíu- og orkumálaráðuneytisins þegar lögreglan mætti klukkan 02:30 í nótt að norskum tíma, 01:30 að íslenskum.
Mótmælendur, sem voru frá Samtökum samískra aðgerðasinna í Noregi (n. Norske Samers Riksforbund Nuorat) og náttúruverndarsamtökunum Natur og Ungdom, höfðu dvalið í anddyrinu síðan á fimmtudag.
Samtökin voru að mótmæla notkun vindmyllna í Þrændalögum sem hafði verði dæmd ólögmæt í Hæstarétti.
Vindmyllurnar voru skaðlegar beitilandi hreindýra og var úrskurðað að þær færu gegn alþjóðasáttmála um rétt frumbyggja til þess að njóta eigin menningar. Þær voru dæmdar ólögmætar 11. október 2021 en enn eru 150 vindmyllur í fullum snúningi.
Lögreglan í Ósló greinir frá því á Twitter að hún hafi fengið fyrirskipun frá öryggisdeild ráðuneytisins um að fjarlæga mótmælendur.
Lögregla segist hafa veitt mótmælendunum viðvörun um að þeir ættu að yfirgefa svæðið stundarfjórðungi áður en þeir voru endanlega fjarlægðir, eftir að hafa neitað að fara.
Í tísti frá lögreglunni í Ósló segir: „Mótmælendur fengu frest til kl. 02:25 til að yfirgefa bygginguna. Enginn hefur fylgt þessari fyrirskipun og verða þeir nú fluttir á lögreglustöðina.“
Sænski umhverfisverndarsinninn Greta Thunberg lét sjá sig fyrir utan ráðuneytið. Henni var synjaður aðgangur að ráðuneytinu.
„Það er enginn annar möguleiki í boði en að hlusta á þá frumbyggja sem búið er að brjóta á. Það er fáránlegt, þetta sem er að gerast – að samíski ungdómurinn neyðist til þess að beita slíkum aðferðum,“ segir Thunberg í viðtali við við NRK.
„Það að [lögreglan] geri þetta um miðja nótt sýnir fram á að þetta þolir ekki dagsbirtu.“