Brigsla Úkraínumönnum um drónaárás

Myndin sem ráðgjafinn úkraínski, Anton Gerasjenkó, birti á Twitter en …
Myndin sem ráðgjafinn úkraínski, Anton Gerasjenkó, birti á Twitter en áður höfðu rússneskir miðlar birt hana og sagt drónann hafa verið í árásarför að undirlagi Úkraínumanna. Ljósmynd/Twitter

Rússnesk stjórnvöld halda því fram að drónaárás Úkraínumanna hafi verið hrundið í dag en henni hafi verið ætlað að valda tjóni á innviðum borgaralegrar starfsemi. Þetta segir Andrei Voróbíov, héraðsstjóri í Kolomna, þar sem Rússar halda því fram að úkraínskur dróni hafi skollið til jarðar nærri vinnslustöð gasframleiðandans Gazprom í útjaðri þorpsins Gúbastóvó.

Birta rússneskir fréttamiðlar þessu til jarteikna mynd af löskuðum dróna sem vissulega er af hinni úkraínsku gerð UJ-22 að bestu sérfræðinga yfirsýn. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC virðist sem um nýja mynd sé að ræða, alltént finnur myndleitarforrit ekki eldri útgáfur sömu eða svipaðrar myndar á lýðnetinu.

Ritar héraðsstjórinn á samfélagsmiðilinn Telegram að gasvinnslustöðin hafi augljóslega verið skotmarkið, en hún hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Segja stjórnvöld rússnesk loftvarnakerfi hafa skotið drónann niður.

Segir Pútín mega vara sig

UJ-22-dróninn, sem úkraínska hergagnafyrirtækið Ukrjet framleiðir, hefur 800 kílómetra flugþol og gæti því hafa náð til Kolomna-héraðsins frá Úkraínu. Anton Gerasjenkó, ráðgjafi innanríkisráðherra Úkraínu, birtir myndina af drónanum á Twitter og skrifar þar við: „Þetta er meira en 500 kílómetra frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Brátt gæti Pútín farið að óttast að láta sjá sig opinberlega þar sem drónar geta farið um langan veg.“

Brigslar rússneska varnarmálaráðuneytið Úkraínumönnum um að hafa ætlað sér að skaða rússneska innviði með drónum en bætir því við í tilkynningu sinni að „rafræn hernaðarkerfi“ hafi komið í veg fyrir það. Úkraínumenn hafa hins vegar ekki staðfest að þeir hafi staðið á bak við ferðalag drónans.

Biður leyniþjónustu að herða róðurinn

Pútín Rússlandsforseti bað í dag leyniþjónustu landsins að herða eftirlit sitt með því sem hann kallaði aukna njósna- og skemmdarverkastarfsemi af hálfu Úkraínumanna og Vesturlanda. Benti hann leyniþjónustunni enn fremur á að hafa vakandi auga með öryggismálum á þeim svæðum í Austur-Úkraínu sem Rússar hafa hernumið. Eftirlitssveitir við landamærin yrðu að stöðva skemmdarverkahópa og fyrirbyggja smygl ólöglegra vopna og skotfæra.

„Við verðum að skerpa á gagnnjósnum okkar almennt þar sem vestrænar leyniþjónustur hafa yfirleitt verið mjög virkar gagnvart Rússlandi,“ sagði forsetinn í dag og kvað Rússa þurfa að bregðast við umsvifum erlendra ríkja með viðeigandi hætti.

BBC

Newsweek

AP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka