Segir Bandaríkin hafa aðstoðað við drónaárásir

Ryabkov segir að Úkraínumenn hefðu aldrei náð að gera slíkar …
Ryabkov segir að Úkraínumenn hefðu aldrei náð að gera slíkar árásir án þess að hafa notið aðstoðar bandarískra yfirvalda. AFP

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands segir að drónaárásir, sem Rússar saka Úkraínumenn um að hafa gert á rússneskar herstöðvar, hafi aðeins verið mögulegar með aðstoð bandarískra yfirvalda. 

Sergei Ryabkov, sem er nú staddur í Genf í Sviss til að ávarpa mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og taka þátt í umræðum á ráðstefnu um afvopnun, segir að bandarísk stjórnvöld hljóti að hafa útvegað Úkraínumönnum upplýsingar um skotmörk og veitt þeim tæknilega aðstoð. 

Rússneska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í desember að drónaárás úkraínska hersins hefði valdið sprengingum á tveimur flugvöllum í landinu með þeim afleiðingum að þrír létust. 

Önnur stöðin er Engels-herflugvöllurinn í suðurhluta héraðsins Saratov, sem er rúmlega 600 km frá landamærunum að Úkraínu. Þar eru geymdar nokkrar af sprengjuflugvélum rússneska hersins sem geta flogið með kjarnorkuvopn. 

Rússar héldu því fram í desember að árásirnar hefðu verið gerðar með flygildum frá tímum Sovétríkjanna.

Bandarísk yfirvöld sögðu aftur á móti 6. desember að þau hefðu ekki veitt Úkraínu aðstoð við að gera slíkar árásir innan landamæra Rússlands. Þá hafa stjórnvöld í Úkraínu aldrei tjáð sig um það hvort þau hafi, eður ei, gert drónaárásir innan Rússlands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert