Frekari ógnum verði svarað „í réttu hlutfalli“

Bandarískur dróni af tegundinni MQ-9 Reaper á flugi yfir æfingasvæði …
Bandarískur dróni af tegundinni MQ-9 Reaper á flugi yfir æfingasvæði árið 2020. AFP

Varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Sjoígú, hefur lýst því yfir að öllum frekari ógnum Bandaríkjamanna verði svarað „í réttu hlutfalli“, eftir árekstur rússneskrar herþotu á dróna Bandaríkjamanna yfir Svartahafi.

Rússneska varnarmálaráðuneytið greinir frá þessu í yfirlýsingu þar sem segir að Sjoígú hafi tjáð bandarískum starfsbróður sínum þetta.

Ráðuneytið heldur því enn fremur fram að flug drónans hafi verið hluti af njósnaaðgerðum Bandaríkjanna.

Sergei Sjoígú, varnarmálaráðherra Rússlands.
Sergei Sjoígú, varnarmálaráðherra Rússlands. AFP

Vanvirðing við lokað loftsvæði

Frá því hefur verið greint að Bandaríkjamenn hafi ásakað Rússa í gær um að hafa flogið Su-17 herþotu á drónann. Dróninn lenti í hafinu en nú keppast þjóðirnar um að ná greipum sínum um hann.

Sjoígú segir „aukna upplýsingaöflun sem fer gegn hagsmunum Rússlands“ og „vanvirðingu við lokað loftsvæði“ hafa leitt til ákvörðunarinnar um að stöðva flug bandaríska drónans.

Hann segir að flug ómannaðra bandarískra herflygilda á svæðinu sé í eðli sínu ögrandi og „skapi forsendur fyrir stigmögnun á ástandinu við Svartahaf“.

Þetta er fyrsta atvikið af þessu tagi sem hefur orðið á milli Bandaríkjanna og Rússlands frá því innrásin í Úkraínu hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert