Til hjartasérfræðings 19 ára eftir kókaín

Kókaínneysla eykst hröðum skrefum í Arendal og ekki er langt …
Kókaínneysla eykst hröðum skrefum í Arendal og ekki er langt síðan greint var frá bylgju dauðsfalla meðal sprautufíkla þar vegna eitraðra fíkniefna í umferð. Myndin er frá Grimstad í Arendal. Ljósmynd/Wikipedia.org/Colliekar

Nítján ára gamlir íbúar í Arendal í Suður-Noregi hafa leitað til hjartasérfræðings í kjölfar kókaínneyslu og segir lögregla aðgengi að efninu aldrei hafa verið auðveldara en nú, yngstu neytendur séu á grunnskólaaldri.

Af þessu tilefni hafa sveitarfélagið og lögreglan boðað til foreldrafundar í Menningarmiðstöð Arendal 28. mars þar sem 700 komast í sæti, en þó bókuðust öll pláss á þeim fundi upp eins og hendi væri veifað.

Að sögn Terje Østebø Eikin, varabæjarstjóra í Arendal, var ákveðið að blása til fundarins í kjölfar fundar bæjaryfirvalda með lögreglu en á foreldrafundinum verða hvort tveggja fulltrúar lögreglu og vímu- og ávanadeildar Sørlandet-sjúkrahússins. Er ætlunin meðal annars að fara þar yfir æskileg viðbrögð foreldra við þeim áskorunum sem sumir þeirra nú standa frammi fyrir.

Ofskömmtun kókaíns í gagnagrunninn

Samkvæmt tölum frá skráningarstofunni Norsk pasientregister sem norska ríkisútvarpið NRK hefur fengið aðgang að fjölgar þeim tilfellum þar sem fólk undir lögaldri þarf að gangast undir meðferð í kjölfar þess að hafa tekið inn of stóran skammt af fíkniefnum. Árið 2017 fengu 74 ungmenni slíka meðferð, en árið 2021 var talan orðin 134. Tölur fyrir síðasta ár liggja ekki fyrir enn sem komið er. Eins var árið 2021 fyrsta árið sem ofskömmtun kókaíns rataði inn í gagnagrunn Norsk pasientregister og voru tilfellin sex á landsvísu.

Ekki er langt síðan norskir fjölmiðlar fjölluðu um bylgju dauðsfalla meðal sprautufíkla í Arendal vegna sprautuefna sem talið var að blönduð hefðu verið rottueitri og ketamíni.

Asbjørn Visland, sem starfar við vímu- og ávanadeildina á Sørlandet-sjúkrahúsinu, avdeling for rus og avhengighet, bendir á algengar ástæður þess að börn leiti í vímuefni – þau lenda utangarðs, búa á brotnum heimilum eða eru afskipt.

Asbjørn Visland starfar við vímu- og ávanadeildina á Sørlandet-sjúkrahúsinu og …
Asbjørn Visland starfar við vímu- og ávanadeildina á Sørlandet-sjúkrahúsinu og verður á foreldrafundinum í Arendal 28. mars. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Í neysluhópnum upplifa þau í fyrsta skipti að þau tilheyri einhverju samfélagi. Þar fá þau gjarnan verkefni á borð við að selja efni eða rukka fíkniefnaskuldir. Svo byrja þau sjálf í neyslu og færa sig yfir í sterkari efni,“ segir Visland. Þessa vegferð megi oft stöðva sé ekki of seint í rassinn gripið. Margir leiti sér hjálpar upp úr tvítugu. „Þá fáum við ungt fólk með mikinn neysluvanda inn á deildina.“

Torbjørn Trommestad, yfirlögregluþjónn í Arendal, segir kókaín mun aðgengilegra en áður var auk þess sem þröskuldurinn við að hefja neyslu hafi nú lækkað til muna. Hann segir áhættuna mikla sem ungmenni taka með neyslunni. „Sumir upplifa neikvæðar afleiðingar eftir örfá skipti og þurfa að leita til læknis eða hjartasérfræðings,“ segir Trommestad við NRK.

NRK
NRKII (norsk ungmenni nota meira kókaín)
Agderposten (læst áskriftargrein)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert