Gefa út handtökuheimild á Pútín

Vladimír Pútín Rússlandsforseti verður ákærður fyrir stríðsglæpi.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti verður ákærður fyrir stríðsglæpi. AFP/Ilya Pitalev

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur gefið út handtökuheimild á Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna stríðsglæpa í Úkraínu. 

Í tilkynningu saksóknara dómstólsins segir að þeir hafi gefið út handtökuheimild á hendur Pútín og Maríu Lvova-Belova, en hún er fulltrúi forsetans varðandi réttindi barna, en brot þeirra tengjast brottflutningi Rússa á úkraínskum börnum til Rússlands. 

Sagði í tilkynningu þeirra að Pútín „bæri meinta ábyrgð á stríðsglæpnum ólöglegum brottflutningi fólks (barna) og ólöglegum flutningi íbúa (barna) frá hernumdum svæðum Úkraínu til Rússlands.“ Ná glæpirnir til 24. febrúar 2022, daginn sem innrásin hófst.

Hafi enga þýðingu

María Sakharóva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að ákvörðun sakamáladómstólsins hefði enga þýðingu fyrir Rússland, þar á meðal enga lagalega þýðingu, þar sem Rússland væri ekki aðili að stofnsáttmála dómstólsins og bæri því engar skyldur gagnvart honum. 

„Rússland vinnur ekki með þessari stofnunin og mögulegar „uppskriftir“ að handtöku frá alþjóðlega dómstólnum eru lagalega ógildar hvað okkur snertir,“ sagði Sakharóva. 

Söguleg ákvörðun

Stjórnvöld í Kænugarði fögnuðu hins vegar ákvörðun dómstólsins. Andrí Kostín, ríkissaksóknari Úkraínu, sagði hana skilaboð um að rússnesk stjórnvöld hefðu hegðað sér á glæpsamlegan hátt og að forysta Rússlands og fylgisveinar yrðu dregnir til ábyrgðar. 

„Þetta er söguleg ákvörðun fyrir Úkraínu og allt kerfi alþjóðalaga,“ sagði Kostín og bætti við að aðrir þjóðarleiðtogar þyrftu nú að hugsa sig þrisvar um áður en þeir myndu heimsækja eða heilsa Pútín. 

Míkhaíló Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, sagði að ákvörðunin væri skýrt merki til rússneskrar elítu um hvað biði þeirra, og hvers vegna hlutirnir gætu aldrei orðið líkt og fyrir innrásina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert