Mykhaylo Podolyak, aðstoðarmaður Úkraínuforseta, gagnrýndi harðlega óvænta heimsókn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta til hafnarborgarinnar Maríupol sem rússneskar hersveitir hertóku á síðasta ári.
„Glæpamaðurinn snýr alltaf aftur á vettvang glæpsins...morðingi þúsunda fjölskyldna í Maríupol kom til að dást að rústum borgarinnar og gröfum hennar. Napurlegt og skortur á eftirsjá,“ sagði Podolyak á Twitter.
Borgarráð Maríupol fordæmdi einnig heimsókn Pútíns. „Alþjóðlegi stríðsglæpamaðurinn Pútín heimsótti hina hersetnu Maríupol. Hann horfði á „enduruppbyggingu borgarinnar“... að nóttu til. Líklega til að geta ekki séð borgina, sem „frelsun hans“ drap í dagsljósi,“ sagði borgarráðið á Twitter.
Stjórnvöld í Rússlandi segja að heimsóknin hafi verið ákveðin með stuttum fyrirvara eftir að forsetinn heimsótti Krímskaga óvænt í gær.
„Þetta gerðist allt með mjög skömmum fyrirvara,“ sagði Dimitrí Peskov, talsmaður Kremlar. „Ferðir hans um borgina voru ekki skipulagðar“ og heldur ekki fundir hans með íbúunum, bætti hann við.