Svíar með lægstu dánartíðnina í faraldrinum

Anders Tegnell, fyrrverandi sótt­varna­lækn­ir Svíþjóðar.
Anders Tegnell, fyrrverandi sótt­varna­lækn­ir Svíþjóðar. AFP

Ný skýrsla sænsku hagstofunnar (SCB) sýnir fram á að umframdauðsföll hafa hlutfallslega verið fæst í Svíþjóð af öllum Evrópulöndum, frá því heimsfaraldur kórónuveirunnar tók að geisa.

Stefna sænskra stjórnvalda hefur verið mjög umdeild þar sem ekki var gripið til víðtækra sam­fé­lagstak­mark­ana í bar­áttu við útbreiðslu veirunnar. 

Frá Stokkhólmi fyrr í mánuðinum.
Frá Stokkhólmi fyrr í mánuðinum. AFP

Dánartíðni segi ekki alla söguna

Svenska Dagbladet ræddi meðal annars við And­ers Teg­nell, fyrrverandi sótt­varna­lækn­i Svíþjóðar, um skýrslu hagstofunnar, en Tegnell hlaut mikla gagnrýni á sínum tíma.

Hann starfar nú hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni.

Tegnell sagðist fagna niðurstöðu SCB en benti á að dánartíðni segi ekki alla söguna. Ýmislegt spili inn í svo sem íbúasamsetning. Þrátt fyrir það gefi gögnin til kynna að Svíar hafi staðið sig nokkuð vel í sóttvarnaaðgerðum. 

Ísland í fimmta sæti

Niðurstöður SCB taka til þeirra dauðsfalla sem urðu umfram það sem gengur og gerist á meðan heimsfaraldrinum stóð, þ.e.a.s. dauðsfalla vegna Covid-19. 

Ísland er í fimmta sæti á listanum yfir hlutfallslega fæst umframdauðsföll, en í öðru sæti er Noregur, þá Lúxemborg og í því fjórða er Danmörk. 

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins um málið segir fréttamaður þess að ekki megi búast við því að yfirvöld í Svíþjóð lýsi yfir sigri í bráð vegna nálgunar sinnar.

„Litið væri á það sem óviðeigandi og fljótfærnislegt – og það væri næstum ómöguleg ályktun, þar sem svo margir þættir spila inn í. En innan fjölmiðla og við kvöldverðarborðin er ilmur af sigri: Tegnell og félagar höfðu rétt fyrir sér. Gagnrýnendurnir úti í heimi höfðu á röngu að standa,“ skrifar fréttaskýrandinn Jesper Zølck.

„Sænska leiðin var sú rétta fyrir Svíþjóð. Í dag er erfitt að finna Svía sem sitja eftir með þá tilfinningu að þeir hefðu frekar viljað búa við meiri lokanir lifa í gegnum faraldurinn. Og nýju tölurnar um umframdauðsföll styrkja þá tilfinningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert