Flytur kjarnavopn til Hvíta-Rússlands

Vladimír Pútín á fundi í Kreml í dag.
Vladimír Pútín á fundi í Kreml í dag. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyggst láta flytja kjarnavopn vestur yfir landamærin til Hvíta-Rússlands. Kveðst hann hafa náð samkomulagi um þetta við hvítrússneska forsetann Alexander Lúkasjenkó.

Rússneska Tass-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir Pútín að þessi aðgerð brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga um takmörkun kjarnavopna.

Bendir hann á að Bandaríkin hýsi kjarnavopn í ríkjum evrópskra bandamanna sinna. 

Þá segir hann að Lúkasjenkó hafi lengi vakið máls á því að kjarnavopn frá Rússum verði hýst í Hvíta-Rússlandi.

Landið á landamæri að fimm ríkjum; Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Litháen og Lettlandi. Þau þrjú síðarnefndu tilheyra Atlantshafsbandalaginu.

Smærri en hefðbundin kjarnavopn

Um er að ræða svo­kölluð taktísk kjarna­vopn, sem eru smærri en hefðbund­in kjarna­vopn og eru hönnuð til að beita á víg­vell­in­um á móti hefðbundn­um hernaði. 

Talið er að rúss­nesk stjórn­völd búi yfir allt að tvö þúsund kjarna­odd­um af þess­ari gerð.

Greint var frá því í nóvember á síðasta ári að hátt­sett­ir yf­ir­menn inn­an rúss­neska hers­ins hefðu þá ný­verið rætt sín á milli um hvenær og hvernig mætti beita kjarna­vopni í Úkraínu.

Umræðurn­ar höfðu þá enn frek­ar á áhyggj­ur ráðamanna í Washingt­on og öðrum höfuðborg­um Vest­ur­landa, þar sem upp­lýs­ing­un­um var deilt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert