Nemendum og kennurum boðið að sjá nakinn Davíð

Styttan af Davíð hefur verið til sýnis í Galleria dell'Accademia …
Styttan af Davíð hefur verið til sýnis í Galleria dell'Accademia í Flórens á Ítalíu frá árinu 1873. AFP/Max Rossi

Galler­ia dell'Acca­dem­ia-safnið í Flórens á Ítal­íu sem hýs­ir styttu Michaelang­e­los af Davíð, hef­ur boðið nem­end­um og kenn­ur­um skóla í Flórída-ríki í Banda­ríkj­un­um að heim­sækja safnið.

Til­efnið er að skóla­stjóri skól­ans var lát­inn segja af sér eft­ir að nem­end­um var sýnd mynd af stytt­unni af Davíð. BBC seg­ir frá.

Cecilie Holl­berg, safn­stjóri Galler­ia dell'Acca­dem­ia, hef­ur boðið skól­an­um að heim­sækja safnið en stytt­an hef­ur verið þar til sýn­is frá ár­inu 1873. Seg­ir hún að skóla­stjór­inn ætti að vera verðlaunaður en ekki refsað.

„Ég hélt fyrst að þetta væru fals­frétt­ir, svo ólík­leg­ar og frá­leidd­ar voru þær,“ sagði Holl­berg um brottrekst­ur skóla­stjór­ans.

„Greinamun­ur verður að vera gerður á milli nekt­ar og kláms. Það er ekk­ert klám­fengið við Davíð. Hann er ung­ur strák­ur, smali, sem átti lát­laus föt sam­kvæmt Biblí­unni. Hann vildi verja fólk sitt með því sem hann átti,“ sagði Holl­berg.

Borg­ar­stjóri Flórens, Dario Nar­della, hef­ur einnig boðið kenn­ar­an­um sem sýndi stytt­una til að heim­sækja borg­ina.

For­eldri taldi stytt­una klám

Kvört­un­ kom í kjöl­far list­kennslu í skól­an­um þar sem nem­end­um var sýnd Davíðsstytt­an. Stytt­an, sem er ein sú fræg­asta í vest­rænni sögu, sýn­ir nak­inn Davíð, per­sónu úr Biblí­unni sem drep­ur ris­ann Golí­at.

For­eldri barns taldi að efnið væri klám­fengið og tvö önn­ur sögðust hafa viljað vita af kennslu­stund­inni áður en hún fór fram.

Skóla­stjór­inn Hope Carra­saquilla til­kynnti að hún hefði sagt upp störf­um eft­ir að hafa fengið boð um að segja af sér eða vera rek­in. Hún hafði gegnt starf­inu í minna en eitt ár.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka