„Úkraínumenn munu aldrei fyrirgefa“

Úkraínuforseti Volodimír Selenskí í Bútsja fyrir tæpu ári síðan, örfáum …
Úkraínuforseti Volodimír Selenskí í Bútsja fyrir tæpu ári síðan, örfáum dögum eftir að rússneskir hermenn yfirgáfu borgina. AFP

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, segir að Úkraínumenn muni aldrei fyrirgefa Rússum fyrir stríðsglæpi þeirra í Bút­sja. Í dag er ár síðan að Rússar yfirgáfu bæinn eftir 33 daga hernám og hefur bærinn orðið tákn þeirra voðaverka sem Rússar hafa framið í landinu, síðan innrásin hófst. 

„Bútsja. 33 daga hernám. Meira en 1.400 dauðsföll, þar af 37 börn. Meira en 175 manns fundust í fjöldagröfum og pyntingaklefum. 9.000 rússneskir stríðsglæpir. 365 dagar síðan borgin var frelsuð. Hún er tákn um voðaverk rússneska hersins. Við munum aldrei fyrirgefa. Við munum refsa hverjum einasta geranda,“ sagði Selenskí á Telegram-síðu sinni. 

Selenskí heimsótti Bútsja nokkrum dögum eftir að rússneskir hermenn yfirgáfu hana og lýsti gjörðum þeirra í borginni sem þjóðarmorði. Bandamenn Úkraínu hafa einnig sakað Rússland um stríðsglæpi í borginni og hafa bent til myndefnis og vitnisburða borgarbúa sem sanni glæpina. 

Rússland neitar hins vegar allri sök og segja hörmungarnar í Bútsja hafa verið sviðsettar. Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytisins, sagði í vikunni að atburðirnir í Bútsjá væru „gróf ögrun“ af hálfu úkraínskra stjórnvölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert