Taka við formennsku: „Versta aprílgabb allra tíma“

Rússland fer nú með formennsku öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Rússland fer nú með formennsku öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. AFP

Rússar hafa tekið við formennsku öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna fyrir aprílmánuð en þau fimmtán lönd sem öryggisráðið samanstendur af skiptast á að vera í formennsku í mánuð í senn.

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, segir formennsku Rússlands í ráðinu vera „versta aprílgabb allra tíma.“ 

Fréttastofa CNN greinir frá þessu.

Innrás síðast þegar Rússland var í formennsku

„Landið sem brýtur gegn öllum reglum um þjóðaröryggi á kerfisbundinn hátt fer nú með formennsku yfir ráði sem hefur það eina hlutverk að standa vörð um þjóðaröryggi,“ segir Kuleba.

Síðast þegar Rússland fór með formennsku öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var í febrúar 2022 en eins og frægt er hófst innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2022. 

Þá hafa ýmsir bent á að það skjóti skökku við að Rússland fari með formennsku ráðsins þegar að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur gefið út handtökuheimild á Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna stríðsglæpa í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka