Petteri Orpo verður næsti forsætisráðherra Finnlands eftir sigur Íhaldsflokks hans í þingkosningunum í dag. Sanna Marin forsætisráðherra viðurkenndi ósigur sinn nú klukkan 20.30.
Uppfært klukkan 21.13:
Innan við eitt prósentustig skilur þrjá atkvæðamestu flokkana að en tölur eftir að 97,6 prósent atkvæða höfðu verið talin féllu þannig að Íhaldsflokkurinn hlaut 20,7 prósent, Sannir Finnar, flokkur Riikku Purra, 20,1 prósent og Jafnaðarmannaflokkur Sönnu Marin 19,9 prósent.
Sá flokkur sem flest atkvæði hlýtur fær umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður og kemur það því í hlut Orpo og hans flokks.
„Ég gleðst ákaflega. Þetta er stór sigur fyrir okkur. Ég held að finnska þjóðin vilji breytingar. Ég mun nú hefja viðræður við alla flokka,“ sagði Opro glaðbeittur í yfirlýsingu sem hann flutti fjölmiðlum eftir að ljóst varð í hvað stefndi.
Spurður hvort hann væri viljugur til samstarfs við flokk yst á hægri vængnum, þar sem vísað var til Sannra Finna, sagði hann ekkert ysta hægri fyrirfinnast í landinu. „Ég er reiðubúinn til að ganga til samninga við þá einnig,“ svaraði hann í framhaldinu.
Orpo gekk til kosningabaráttu með fyrirheit um nýja stefnu í efnahagsmálum þar sem minnkuð útgjöld hins opinbera sætu í fyrirrúmi auk skattalækkana en með því hyggst hann leysa aukinn skuldavanda finnska ríkisins. Hann er enn fremur þeirrar skoðunar að Finnar þurfi að rifa segl velferðarkerfis síns.
Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, sendi Orpo hamingjuóskir fyrir hönd norska systurflokksins Hægri þegar úrslitin lágu fyrir og sagði strangar stjórnarmyndunarviðræður fram undan, en að sigur Orpo og Íhaldsflokksins hafi verið mikilvægur.