Trump kominn til New York

Trump er mættur til þingfestu í Manhattan.
Trump er mættur til þingfestu í Manhattan. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ferðaðist fyrr í kvöld til New York, en hann verður færður fyrir dómara á morgun þegar fyrirtaka verður í máli Alvins Bragg, saksóknara á Manhattan, gegn honum.

Mikið fjölmiðlafár er í kringum réttarhöldin og var m.a. sjónvarpað í beinni útsendingu þegar Trump hélt frá aðsetri sínu í Mar-a-Lago til flugvallarins í Flórída-ríki, og þegar „Trump Force One,“ flugvél hans, tók af stað.

Trump veifaði til stuðningsmanna sinna þegar hann gekk inn í Trump Tower ásamt fylgdarliði.

„Þau eru ekki á eftir mér, þau eru á eftir ykkur – ég stend aðeins í vegi þeirra!“ skrifaði Trump í hástöfum í færslu sem hann birti á samfélagsmiðli sínum Truth Social. Færslan var ein ótalmargra sem hann birti á leið sinni frá Flórída til New York.

Hika ekki við að handtaka „múgæsingamenn“

Lögreglan í New York var með mikinn viðbúnað, auk þess sem lífverðir Trumps voru fyrir utan bæði Trump-turninn og dómstólinn í Manhattan.

Eric Adams, borgarstjóri New York, hefur varað alla sem ætla sér að mótmæla með ofbeldi við því að þeir verði „handteknir og gerðir ábyrgir“ sama hver viðkomandi sé.

Eric Adams, borgarstjóri New York.
Eric Adams, borgarstjóri New York. AFP

„Þó það gæti verið að einhverjir múgæsingamenn hugsi um að koma í borgina okkar á morgun, þá eru skilaboðin okkar skýr og þau eru einföld: „Hafið stjórn á ykkur“,“ sagði Adams á blaðamannafundi.

Tekin verða fingraför og ljósmyndir af Trump sem grunuðum einstaklingi í málinu, en slíkt er gert við sakborninga í öllum sakamálum sem koma fyrir rétt í New York. Það þykir hins vegar ólíklegt að hann verði leiddur í handjárnum í dómssal.

Trump hefur gefið út að hann muni halda strax aftur til Flórída að lokinni þingfestu þar sem hann hyggst flytja ræðu við Mar-a-Lago. Stuðningsmenn Trumps hafa hins vegar einnig gert því skóna, að mögulega muni dómari málsins skipa honum að tjá sig ekki um málið, og sagt það hneisu. 

Velunnendur Trumps í Flórída-ríki sendu honum baráttukveðjur þegar hann var …
Velunnendur Trumps í Flórída-ríki sendu honum baráttukveðjur þegar hann var á leið sinni upp á flugvöllinn við Pálmaströnd. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert