Bóluefni gegn krabbameini verði tilbúið fyrir 2030

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Banda­ríska lyfja­fyr­ir­tækið Moderna stend­ur nú að því að þróa brautryðjandi ný bólu­efni sem munu koma til með að virka gegn krabba­meini, hjarta- og æðasjúk­dóm­um og sjálfsof­næmi. Að sögn for­svars­manna lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins munu bólu­efn­in bjarga millj­ón­um manns­lífa og verða kom­in á markað fyr­ir árið 2030.

Dag­blaðið The Guar­di­an grein­ir frá þessu.

Vís­inda­menn­irn­ir á bak við ból­efn­in segja þau hafa þró­ast með ótrú­leg­um hraða og segja að fimmtán ára virði af vinnu hafi skyndi­lega þotið áfram á tólf til átján mánuðum þökk sé bólu­efn­inu sem var þróað vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Nýju ból­efn­in byggja á mRNA-tækni en bólu­efnið gegn kór­ónu­veirunni bygg­ist á sömu tækni.

Bólu­efn­in sér­sniðuð að þörf­um sjúk­linga

Að sögn Paul Burt­on, yf­ir­manns lækna­deild­ar fyr­ir­tæk­is­ins, mun fyr­ir­tækið geta notað bólu­efn­in gegn ýms­um sjúk­dóm­um inn­an fimm ára. Hann seg­ir að fyr­ir­tækið muni geta boðið upp á sér­sniðin bólu­efni gegn margskon­ar krabba­mein­um. Bólu­efnið mun þá kenna frum­um lík­am­ans að búa til prótein sem virk­ir ónæmis­kerfið gegn nán­ar til­greind­um sjúk­dóm­um.

Hann tel­ur jafn­vel að mRNA tækn­in muni koma til með að út­vega meðferð gegn sjúk­dóm­um sem áður voru áður tald­ir ólækn­andi. „Ég held að eft­ir tíu ár muni blasa við okk­ur heim­ur þar sem þú munt auðveld­lega geta staðsett upp­tök sjúk­dóma í gena­meng­inu og klippt það út og svo gert við það með hjálp mRNA-tækni,“ er haft eft­ir Burt­on í frétt Guar­di­an.

Lækn­ar munu þá koma til með að taka vefja­sýni úr æxl­um í fólki og senda til grein­ing­ar. Þegar niðurstaða úr grein­ing­unni lægi fyr­ir yrði hún notuð til að sér­sníða mRNA-meðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert